Veftré Print page English

Emírinn af Katar og framkvæmdastjóri Arababandalagsins koma til Íslands


Forseti átti í gær fundi í Doha höfuðborg Katars með hans hátign emírnum af Katar, Sheikh Hamad Bin Khalifa Al Thani og Amr Moussa framkvæmdastjóra Arababandalagsins. Á fundunum var rætt um að þeir komi báðir til Íslands á næstu mánuðum.


Katar hefur á undanförnum árum orðið öflugur þátttakandi í fjármálakerfi heimsins og nýtt afraksturinn af náttúruauðlindum landsins m.a. til að taka þátt í atvinnurekstri víða á Vesturlöndum. Fjárfestingarsjóður Katars hefur þannig beitt sér undanfarið til að styrkja stöðugleika í fjármálakerfi veraldarinnar.


Á fundi forseta Íslands með emírnum af Katar var rætt um að kanna á næstunni möguleika á samstarfi Íslands og Katars á ýmsum sviðum en grundvöllur að slíkum viðræðum var lagður í opinberri heimsókn forseta Íslands til Katars í janúar síðastliðnum. Í samræðum forsetans og emírsins í gær var einkum rætt um samvinnu á þremur sviðum.


Í fyrsta lagi á vettvangi fjármálaþjónustu og bankastarfsemi. Í öðru lagi í orkumálum, einkum við nýtingu hreinnar orku, m.a. með það fyrir augum að tvinna saman nýtingu sólarorku, vindorku og jarðhita. Sendinefnd frá Katar skipuð sérfræðingum og stjórnendum á þessu sviði er væntanleg til Íslands á næstunni. Í þriðja lagi var rætt um samvinnu á sviði erfðafræði og læknavísinda. Ákveðið var að Rannsóknarstofnun Katars myndi bjóða dr. Kára Stefánssyni forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar að koma til Katars til frekari viðræðna. Rannsóknir í erfðafræði geta komið að miklu gagni í baráttunni við fjölmarga sjúkdóma sem algengir eru í Mið-Austurlöndum.


Emírinn af Katar tilkynnti einnig á fundinum að hann hefði þegið boð forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar um að koma í opinbera heimsókn til Íslands. Dagsetning hefur enn ekki verið ákveðin en heimsóknin verður að líkindum í júlí.


Fyrr um daginn átti forseti Íslands fund með framkvæmdastjóra Arababandalagsins Amr Moussa sem var í Doha vegna friðarviðræðna andstæðra fylkinga í Líbanon. Á fundi forseta með Amr Moussa var rætt um hlutverk smáríkja við lausn deilumála, framboð Íslands til Öryggisráðsins og væntanlega heimsókn Amr Moussa til Íslands. Moussa er einn helsti áhrifamaður í arabaheiminum, mikilsvirtur sáttasemjari og fyrrum utanríkisráðherra Egyptalands.


Í morgun var tilkynnt í Doha að náðst hefði sögulegt samkomulag milli deiluaðila í Líbanon, einkum fyrir milligöngu Amr Moussa og emírsins af Katar.