Veftré Print page English

Samúðarkveðja til forseta Kína


Forseti hefur í dag sent forseta Kína Hu Jintao samúðarkveðju vegna hinna hræðilegu hörmunga sem orðið hafa í kjölfar jarðskjálftanna í Kína. Atburðirnir hafi skapað öldu samúðar og stuðnings um allan heim. Hugur okkar sé með fjölskyldum og vinum þeirra sem létu lífið eða slösuðust alvarlega. Þess sé óskandi að komandi ár færi þeim á ný styrk og von.

Forseti vék einnig í kveðjunni að samræðum sínum við Hu Jintao í Shanghai á liðnu ári og í Beijing árið 2005 þar sem hann vakti athygli á rannsóknum Íslendinga á sviði jarðskjálfta og hinu öfluga viðvörunarkerfi sem íslenskir vísindamenn og sérfræðingar hefðu þróað. Sú þekking væri framlag Íslendinga til annarra þjóða sem byggju við slíkar hættur.

Íslenska þjóðin hefði langa reynslu af jarðskjálftum og því hefðum við djúpan skilning á þeim hrikalegu afleiðingum sem þeir gætu haft í för með sér. Samúðarhugur Íslendinga væri með kínversku þjóðinni.