Veftré Print page English

Börn með sérþarfir


Dorrit Moussaieff forsetafrú situr í dag, sunnudaginn 20. apríl, og á morgun, mánudaginn 21. apríl, ráðstefnu í Katar í boði hennar hátignar Sheikha Mozah, eiginkonu furstans eða emírsins í landinu. Á ráðstefnunni er fjallað um málefni barna með sérþarfir og sérstök áhersla lögð á samspil íþrótta og getu. Með forsetafrúnni í för er Anna Karólína Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi og framkvæmdastjóri útbreiðslusviðs hjá Íþróttasambandi fatlaðra.
Ráðstefnuna sækir áhrifafólk og sérfræðingar víða að úr veröldinni, forystumenn í íþróttamálum fatlaðra og samtaka sem sinna málefnum barna með sérþarfir. Einnig tekur þátt í ráðstefnunni íþróttafólk sem skarað hefur framúr á alþjóðlegum mótum fatlaðra og þroskaheftra, bæði Ólympíuleikum fatlaðra og Special Olympics.

Meðal efnisþátta á ráðstefnunni er hvernig aukin íþróttaiðkun getur eflt færni og aukið lífsgleði barna og ungmenna og sérstök málstofa er helguð einhverfu, en á næsta ári verður efnt til alþjóðlegs átaks til að auka skilning á henni.

Á ráðstefnunni verður lögð fram greinargerð um starfsemi Íþróttasambands fatlaðra á Íslandi og hinn fjölþætta árangur sem náðst hefur hérlendis með íþróttastarfi fatlaðra.

Það er Shafallah-miðstöðin í Katar sem annast skipulagningu ráðstefnunnar í náinni samvinnu við Sheikha Mozah, en stjórnvöld í Katar hafa ákveðið að styðja myndarlega við alþjóðlegt samstarf í þessum málaflokki.

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú fóru í opinbera heimsókn til Katar í febrúar síðastliðnum og var þá ákveðið að efla samstarf Íslands og Katars á fjölmörgum sviðum.