Veftré Print page English

Sóknarfæri smáríkja í hagkerfi heimsins


Forseti flutti fyrr í dag aðalræðuna á ráðstefnu í Andorra og fjallaði hún um tækifæri smárra ríkja í hagkerfi veraldarinnar. Heiti hennar á ensku er: The 21st Century: The Renaissance of Small States in Global Business, Innovation and Partnerships. Á ráðstefnunni er rætt um stöðu evrópskra smáríkja, einkum Liechtenstein og Andorra, með hliðsjón af tengslum þeirra við Evrópusambandið. Ráðstefnuna sækir fjöldi sérfræðinga, fjármálamanna og forystumanna í þjóðmálum.
Í ræðu sinni lýsti forsetinn hvernig hin breytta heimsmynd hefði skapað smærri ríkjum ný sóknarfæri. Þróun Evrópu undanfarna tvo áratugi hefði sýnt styrkleika fjölmargra lítilla og miðlungsstórra ríkja í álfunni, gagnstætt því sem margir hefðu spáð þegar Berlínarmúrinn féll og kalda stríðinu lauk.
Hin smærri ríki hefðu reynst hafa sveigjanleika og sköpunarkraft til að færa sér í nyt þau tækifæri sem upplýsingabyltingin, alþjóðavæðingin og heimsmarkaðurinn hefðu skapað. Ísland væri kjörið dæmi um þessa þróun. Árangur landsins á fjölmörgum sviðum væri til vitnis um að 21. öldin gæti orðið blómaskeið smárra ríkja. Forseti tók dæmi af íslenskum fyrirtækjum, t.d. á vettvangi orkunýtingar, lyfjaframleiðslu, í rekstri banka og fjármálaþjónustu, smásölu og matvælaframleiðslu, hugbúnaði og upplýsingatækni. Fyrirtæki á öllum þessum sviðum hefðu náð ótrúlegum árangri á alþjóðlegum markaði, bæði í Evrópu og öðrum heimsálfum.
Ísland nyti ýmissa kosta Evrópusambandsins án þess að vera formlegur aðili að því vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Íslendingar gætu sjálfir gert samninga við ríki í öðrum heimsálfum og væri Ísland fyrsta landið í Evrópu sem væri að undirbúa fríverslunarsamning við Kína.
Vissulega gætu smærri ríki, líkt og hin stærri, átt við margvíslega efnahagslega erfiðleika að etja en rétt væri þá að hafa í huga sögulega sýn. Vék forseti að þeirri umræðu sem verið hefði á alþjóðlegum vettvangi á undanförnum vikum um stöðu íslensks efnahagslífs og fjármálakerfis. Í því sambandi rifjaði hann upp kafla úr ræðu sem hann flutti í Helsinki fyrir tæpum tveimur árum þegar á svipaðan hátt hefði verið sótt að Íslandi í alþjóðlegum fjölmiðlum og af fyrirtækjum sem væru keppinautar Íslendinga. Sú lýsing væri sláandi lík því sem hefði verið að gerast undanfarið. Engu að síður hefðu íslenskir bankar og fyrirtæki í kjölfar umræðunnar 2006 sýnt glæsilegan árangur næstu misserin.
Þá vék forseti að nauðsyn þess að efla rannsóknir á stöðu og einkennum smáríkja, bæði í Evrópu og á heimsvísu. Hann lýsti starfsemi Smáríkjaseturs sem stofnað hefði verið við Háskóla Íslands fyrir fáeinum árum. Hvatti hann til þess að smærri ríki í Evrópu efldu samstarf sitt og samvinnu og stuðluðu að öflugri fræðilegri umræðu um þau tækifæri sem 21. öldin fæli í sér.
Auk þátttöku í ráðstefnunni átti forseti fundi með forráðamönnum Andorra meðan á heimsókn hans til landsins stóð.