Veftré Print page English

Opinber heimsókn til Skagafjarðar og Akrahrepps


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú halda í opinbera heimsókn til Skagafjarðar að morgni mánudagsins 14. apríl næstkomandi. Heimsóknin stendur í tvo daga og hefst með því að sýslumaður og fulltrúar sveitarfélaga í sýslunni taka á móti forsetahjónunum. Á fjölþættri dagskrá eru heimsóknir í grunnskóla, heilbrigðisstofnanir, fjölbrautaskóla, vinnustaði og sveitabýli auk þess sem haldin verður viðamikil fjölskylduhátíð í íþróttahúsinu á Sauðárkróki að kvöldi mánudagsins þar sem allir íbúar svæðisins eru boðnir velkomnir.

Fyrri dagur heimsóknarinnar hefst með því að forsetahjónin sækja morgunverðarfund með starfsfólki minjageirans í Skagafirði sem haldinn verður í Minjahúsinu á Sauðárkróki. Um tuttugu nemendur í ferðamálafræðum við Háskólann á Hólum munu einnig taka þátt í fundinum. Í framhaldi af því kynna forsetahjónin sér starfsemi Náttúrustofu Norðurlands vestra. Því næst tekur forsetafrú fyrstu skóflustungu að nýjum leikskóla neðan Túnahverfis á Sauðárkróki. Þaðan er farið í heimsókn á Heilbrigðisstofnunina og að því búnu haldið til fundar við nemendur og starfslið Árskóla og snæddur hádegisverður í mötuneyti nemenda.

Eftir hádegi heimsækja forsetahjónin Iðju-Hæfingu dagþjónustu fatlaðra, fiskvinnslu FISK Seafood og Verið vísindagarða en þar er miðstöð fjölbreytts þróunarstarfs, m.a. á vegum Fiskeldis- og fiskalíffræðideildar Háskólans á Hólum. Í Verinu hefur verið skipulagt Stefnumót við atvinnulífið í Skagafirði þar sem haldnir verða stuttir fyrirlestrar um meginþætti í skagfirsku atvinnulífi og sjónum beint að framtíðinni. Síðla dags kynnir forseti sér starfsemi Skagafjarðarveitna og Gagnaveitu Skagafjarðar.

Mánudagskvöldið 14. apríl verður haldin fjölskylduhátíð í íþróttahúsinu á Sauðárkróki. Þar flytur forseti ávarp og afhendir Hvatningu til ungra Íslendinga, en auk þess bjóða heimamenn upp á viðamikla dagskrá þar sem kórsöngur og annar tónlistarflutningur ungra sem aldinna skipar veglegan sess. Fjölskylduhátíðin hefst klukkan 20:00 og eru allir velkomnir á hana.

Fyrsti áfangastaður forsetahjóna og fylgdarliðs á síðari degi opinberrar heimsóknar til Skagafjarðar er Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra. Jón Hjartarson skólameistari, kennarar og nemendur munu kynna starfsemi skólans og forseti flytja ávarp og svara fyrirspurnum nemenda. Þaðan liggur leiðin í Varmahlíð þar sem börn á hestbaki munu taka á móti forsetahjónum við Upplýsingamiðstöð ferðamála í Skagafirði þar sem félagar í Alþýðulist, félagi handverksfólks í Skagafirði, kynna starfsemi sína. Í Varmahlíðarskóla taka Páll Dagbjartsson skólastjóri, kennarar og nemendur á móti forsetahjónum og kynna skólann. Á sal verða líka börn úr leikskólanum Birkilundi viðstödd.

Að Flugumýri skoða forsetahjón og fylgdarlið tæknivætt fjós og halda síðan heim að Hólum þar sem fyrst verða heimsóttir grunnskóli og leikskólinn Brúsabær en síðan Háskólinn að Hólum þar sem forseti mun m.a. flytja ávarp og svara fyrirspurnum nemenda en síðan flytja setningarávarp á málþinginu Sjálfbær þróun: íslensk náttúra, menning og þekking í alþjóðasamhengi. Frá Hólum halda forsetahjónin að Bæ þar sem Steinunn Jónsdóttir kynnir starfsemi Listasetursins en síðan liggur leiðin á Hofsós. Fyrsti áfangastaður þar verður Grunnskólinn á Hofsósi, en þar verða einnig nemendur frá grunnskólanum að Sólgörðum í Fljótum og úr leikskólanum Barnaborg viðstaddir. Síðan verður haldið að byggingarstað fyrirhugaðrar sundlaugar þar sem Lilja Pálmadóttir og Steinunn Jónsdóttir munu taka fyrstu skóflustunguna en sundlaugin er gjöf þeirra til íbúa á Hofsósi. Síðasti áfangastaður forsetahjóna og fylgdarliðs á Hofsósi er félagsheimilið Höfðaborg þar sem íbúum er boðið er til skemmtunar og kaffisamsætis.

Frá Hofsósi liggur leiðin aftur á Sauðárkrók þar sem efnt verður til samveru í Ljósheimum með Félagi eldri borgara í Skagafirði. Dagskrá heimsóknar forsetahjóna til Skagafjarðar lýkur með kvöldverðarfundi um menntamál í héraðinu með þátttöku fulltrúa frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, grunnskóla og leikskóla í Skagafirði, Háskólanum að Hólum, Farskóla Norðurlands vestra ásamt Byggðaráði Skagafjarðar, sveitarstjóra Skagafjarðar og oddvita Akrahrepps.