Forseti Íslands
The President of Iceland
Al Gore á Íslandi
Al Gore fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og handhafi friðarverðlauna Nóbels kemur til Íslands í dag mánudaginn 7. apríl í boði forseta Íslands. Mun hann eiga fund með forseta á Bessastöðum klukkan 18:30 en að því loknu hefst vinnukvöldverður í boði forseta þar sem fulltrúar úr íslensku vísinda- og fræðasamfélagi flytja stuttar kynningar um efni sem snerta nýtingu jarðhita, landgræðslu, hlýnun loftslags, bráðnun jökla og baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Auk íslenskra vísindamanna og sérfræðinga verða meðal gesta forystumenn háskóla, orkufyrirtækja og umhverfissamtaka.
Í fyrramálið, þriðjudaginn 8. apríl kl. 8:30, flytur Al Gore erindi í boði Glitnis og Háskóla Íslands um hlýnun loftslags í Háskólabíói. Ræður hans um þetta efni hafa vakið gríðarlega athygli um allan heim og hlaut hann friðarverðlaun Nóbels í fyrra fyrir framlag sitt á þessu sviði.
Fulltrúum fjölmiðla er boðið að koma til Bessastaða í kvöld kl. 18:30 og einnig að mynda upphaf fræðslufundarins uppúr kl. 19:00. Þá er fjölmiðlum einnig heimilt að vera við upphaf fundarins í Háskólabíói í fyrramálið en ljósmyndarar og myndatökumenn þurfa skv. almennum reglum sem gilda um slíka fyrirlestra Gore að yfirgefa salinn eftir fyrstu mínútur fyrirlestrarins. Athygli er vakin á því að bíóinu er lokað klukkan 08:25.
Á fræðslufundinum sem forseti boðar til á Bessastöðum í kvöld munu eftirfarandi sérfræðingar og vísindamenn flytja kynningar:
· Andrés Arnalds fagmálastjóri hjá Landgræðslu ríkisins fjallar um gildi landgræðslu í baráttunni gegn hlýnun loftslags.
· Ásgeir Margeirsson forstjóri Geysir Green Energy segir frá nýtingu jarðhita á Íslandi og jarðhitaverkefnum sem Íslendingar standa að í Kína, Þýskalandi og Kaliforníu.
· Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur hjá Orkuveitu Reykjavíkur segir frá fyrirhugaðri nýtingu jarðhita með aðstoð Íslendinga í Afríkuríkinu Djíbútí.
· Helgi Björnsson prófessor við Háskóla Íslands segir frá rannsóknum á jöklum á Íslandi og fyrirhugaðri rannsókn á jöklum í Himalajafjöllum með þátttöku íslenskra vísindamanna.
· Ingvar Birgir Friðleifsson forstöðumaður Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi segir frá starfsemi skólans og alþjóðlegu tengslaneti.
· Sigurður Reynir Gíslason prófessor við Háskóla Íslands segir frá tilraunaverkefni á Hellisheiði sem felur í sér bindingu kolefnis í jarðlögum.
Auk þess mun Alexander Borodin formaður Íslandsvinafélagsins í Moskvu segir frá fyrirhuguðum alþjóðlegum leiðangri næsta vetur yfir Suðurskautslandið með þátttöku Íslendinga. Leiðangurinn verður farinn m.a. í því skyni að kanna áhrif hlýnandi loftslags og verða notaðir jeppar sem sérútbúnir hafa verið hér á landi.
Að loknum fyrirlestri sínum á morgun mun Al Gore kynna sér Hitaveitu Suðurnesja, Bláa lónið og starfsemi Glitnis á sviði endurnýjanlegra orkugjafa.
Letur: |
| |