Forseti Íslands
The President of Iceland
Hvað vilja þau? Skýrsla og ráðstefna um Forvarnardaginn
Á morgun fimmtudaginn 3. apríl verður haldin ráðstefna um niðurstöður Forvarnardagsins sem fór fram í öllum grunnskólum landsins síðastliðið haust. Ráðstefnan sem er haldin í ráðstefnusölum íþróttamiðstöðvarinnar í Laugardal hefst klukkan 13:00 og lýkur um kl. 17:00. Hana sækja fulltrúar sveitarstjórna og íþrótta- og æskulýðssamtaka víða að af landinu ásamt sveit grunnskólanemenda.
Á ráðstefnunni verður kynnt ítarleg skýrsla um svör grunnskólanemendanna, óskir þeirra og tillögur varðandi íþrótta- og tómstundastarf, samveru með fjölskyldunni og neyslu fíkniefna. Fjölmiðlum er boðið að sækja ráðstefnuna og kynna sér niðurstöður skýrslunnar.
Skýrslan sem ber heitið Hvað vilja þau? er byggð á svörum þúsunda grunnskólanemenda í öllum landshlutum og er efni hennar leiðarvísir fyrir stjórnvöld, sveitarstjórnir, íþrótta- og æskulýðsfélög, heimili og skóla.
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson mun setja ráðstefnuna og síðan kynnir Inga Dóra Sigfúsdóttir prófessor og forseti Kennslufræði- og lýðheilsudeildar Háskólans í Reykjavík skýrsluna ásamt fulltrúum frá Rannsóknum og greiningu.
Ólafur F. Magnússon borgarstjóri, Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Ólafur Rafnsson forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Helga G. Guðjónsdóttir formaður Ungmennafélags Íslands og Margrét Tómasdóttir skátahöfðingi lýsa viðbrögðum við hugmyndum og tillögum grunnskólanemendanna. Að því loknu verða ítarlegar hópumræður um niðurstöður skýrslunnar og þá stefnumótun sem byggja má á þeim.
Forvarnardagurinn, sem var haldinn í annað sinn þann 21. nóvember síðastliðinn, er haldinn að frumkvæði forseta Íslands í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, ÍSÍ, UMFÍ og Bandalag íslenskra skáta. Verkefnið var myndarlega styrkt af lyfjafyrirtækinu Actavis í samræmi við stefnu fyrirtækisins um stuðning við íþróttir og forvarnir.
Letur: |
| |