Loftslagsbreytingar og öryggisógnir
Forseti flutti fyrirlestur á vegum Carnegie Council í New York, en sú stofnun er virtur alþjóðlegur vettvangur. Fyrirlesturinn sóttu sendiherrar ríkja hjá Sameinuðu þjóðunum og fjölmargir sérfræðingar og áhrifamenn í alþjóðamálum. Fyrirlestur forseta. Hljóðupptaka
Í fyrirlestrinum lýsti forseti tíu sviðum þar sem varanlegar loftslagsbreytingar fælu í sér ný öryggisvandamál fyrir þjóðir heims. Hvatti hann jafnframt til þess að alþjóðasamfélagið hæfi nú þegar efnisríkar umræður um þessar nýju hættur með þátttöku vísindamanna og sérfræðinga, forystumanna og almannasamtaka. Brýn þörf væri fyrir opna umræðu þar sem sérhver einstaklingur gæti látið rödd sína heyrast.
Þau svið nýrra öryggisvandamála í kjölfar loftslagsbreytinga sem forseti rakti í fyrirlestrinum eru:
1. Stórfelld vandamál í vatnsbúskap jarðarinnar vegna þess að ár og stöðuvötn þorna, jöklar bráðna og eyðimerkur stækka. Fjölmörg stórfljót falla um mörg lönd og því gætu orðið átök milli ríkja um aðgang að vatni til áveitna og orkuframleiðslu.
2. Rýrnun ræktunarsvæða hefði alvarlegar afleiðingar fyrir fæðuöryggi hundruða milljóna manna.
3. Langvarandi þurrkar og flóð gætu haft í för með sér margvíslega nýja erfiðleika fyrir ríki í öllum heimsálfum.
4. Straumur flóttafólks vegna vatnsskorts, hungurs, hækkandi sjávarborðs eða þurrka yrði stórfelldari en mannkyn hefði áður kynnst. Nærri tveir milljarðar íbúa í Asíu búa nærri sjávarmáli og stór hluti þeirra gæti misst heimili sín.
5. Afleiðingar loftslagsbreytinga gætu aukið spennu milli kynþátta og ólíkra trúarsamfélaga og magnað þann vanda sem átök fyrri ára og áratuga sköpuðu.
6. Stjórnkerfi veikburða ríkja gæti hrunið og efnahagslíf þeirra farið í uppnám í kjölfar varanlegra loftslagsbreytinga. Smærri eyríki myndu missa verulegan hluta landsvæða sinna vegna hækkunar sjávarborðs.
7. Orkukerfi fjölmargra ríkja gæti lamast og olíu- og gasauðlindir nærri sjávarmáli orðið óaðgengilegar.
8. Aðgangur að orkuauðlindum á norðurslóðum vegna bráðnunar íshellunnar krefst traustari samvinnu ríkja í norðri en áður hefur þekkst.
9. Nýjar siglingaleiðir á norðurslóðum munu breyta flutningum milli Asíu, Evrópu og Ameríku á afgerandi hátt. Brýnt er að ágreiningur um þessar nýju siglingaleiðir fari ekki í áþekkan farveg og deilurnar um Suez-skurðinn og Panama-skurðinn á síðustu öld.
10. Kröfur um alþjóðlegt hjálparstarf munu stóraukast og gætu orðið núverandi stofnunum Sameinuðu þjóðanna um megn ef ekki yrði gripið til nauðsynlegra ráðstafana.
Forseti áréttaði í ræðu sinni að hægt væri að koma í veg fyrir varanlegar loftslagsbreytingar með gagngerum breytingum á orkubúskap veraldar og nýjum áherslum í efnahagslífi. Ísland væri dæmi um það hvernig hægt væri á æviskeiði einnar kynslóðar að hverfa frá olíu og kolum sem helstu orkugjöfum og verða forystuþjóð í nýtingu hreinnar orku.
Hraði loftslagsbreytinganna væri slíkur að mannkyn hefði aðeins fáeina áratugi til stefnu. Því væri nauðsynlegt að hefja viðræður um viðbrögð við vandamálum sem myndu hellast yfir þjóðir heims ef ekki tækist að koma í veg fyrir hlýnun jarðar.
Forsetinn lýsti hvernig Hafréttarsáttmálinn hefði á sínum tíma markað tímamót. Áður hefðu þjóðir heims staðið í vopnuðum átökum og langvarandi deilum um yfirráð yfir hafsvæðum. Saga Íslands væri sláandi dæmi um það hvernig Hafréttarsáttmálinn hefði leyst landhelgisstríð af hólmi.
Þjóðir heims gætu nú nýtt sér sögu og efnisþætti Hafréttarsáttmálans sem fordæmi við að móta vegvísa í glímunni við þær öryggisógnir sem við blasa. Nefndi forseti einnig þróun Norðurskautsráðsins á umliðnum árum og hvernig Bandaríkin, Rússland, Kanada og Norðurlandaþjóðir ynnu nú saman í heimshluta sem áður hefði verið undirlagður af vígbúnaðarkapphlaupi stórvelda og kjarnorkuógn sem fólst í eldflaugum og umferð kafbáta.
Ræðuna í heild má nálgast á heimasíðu forsetaembættisins en hún fylgir jafnframt þessari tilkynningu. Þá má hlýða á fyrirlesturinn og umræðurnar sem fylgdu í kjölfarið á heimasíðu Carnegie Council (www.cceia.org).