Veftré Print page English

Fyrirlestur og fundir með sendiherrum í New York


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flytur á morgun, þriðjudaginn 1. apríl, fyrirlestur um loftslagsbreytingar og nýjar öryggisógnir á vegum Carnegie Council í New York. Forseti mun einnig eiga fundi með fjölmörgum sendiherrum hjá Sameinuðu þjóðunum þar sem fjallað verður um framboð Íslands til Öryggisráðsins.

Carnegie Council er ein af virtustu stofnunum í Bandaríkjunum á vettvangi alþjóðamála og verður fyrirlestri forseta útvarpað á WPKN útvarpstöðinni. Jafnframt verður hægt að hlusta á fyrirlesturinn og samræðurnar sem fylgja munu í kjölfarið gegnum netsíðu Carnegie Council (www.cceia.org) en einnig verður tenging á hana á heimasíðu forsetaembættisins, forseti.is. Fyrirlesturinn hefst á morgun kl. 12:00 að íslenskum tíma og að honum loknum mun forseti svara fyrirspurnum.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um þau öryggisvandamál sem birtast munu mannkyni á næstu áratugum ef ekki tekst að koma í veg fyrir varanlegar loftslagsbreytingar. Hinar nýju öryggisógnir munu m.a. stafa af kreppu í vatnsbúskap jarðarinnar, stórfelldri eyðingu ræktaðs lands og fæðuskorti, flóðum og langvarandi þurrkum, fellibyljum og straumi flóttafólks frá þeim löndum og heimshlutum sem verða verst úti.

Þá mun hluti orkuauðlinda heimsins rýrna verulega og stjórnkerfi og efnahagslíf fjölmargra veikburða ríkja sem og smárra eyríkja riðlast vegna hrikalegra afleiðinga loftslagsbreytinga.

Forseti mun fjalla um nauðsyn þess að koma í veg fyrir frekari hlýnun loftslags svo forða megi mannkyni frá þessum nýju öryggisógnum. Því verði alþjóðastofnanir eins og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að taka þær til umfjöllunar. Hafréttarsáttmálinn sem gerður var í kjölfar landhelgisstríðanna sé ennfremur lærdómsríkt dæmi um hvernig alþjóðasamfélaginð er fært um að takast á við erfið vandamál og leysa þau á farsælan hátt.

Forseti Íslands mun einnig á morgun og miðvikudaginn 2. apríl eiga fundi með sendiherrum ríkja í Suður-Ameríku og með sendiherrum Norðurlanda og Eystrasaltsríkja hjá Sameinuðu þjóðunum. Á þessum fundum verður fjallað um framboð Íslands til Öryggisráðsins. Forseti var nýlega í opinberri heimsókn í Mexíkó en þá lýsti forseti Mexíkó Felipe Calderón yfir eindregnum stuðningi við framboð Íslands.