Veftré Print page English

Árangur Mexíkóferðar festur í sessi


Árangursríkri heimsókn forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar til Mexíkó lauk í gær með ferð til Veracruz ríkis á austurströnd Mexíkó. Eldfjöll og Mexíkóflói setja svip á náttúru og mannlíf ríkisins og Golfstraumurinn, sem mótar veðurfar og hitastig á Íslandi, á uppruna sinn úti fyrir ströndum Veracruz.

Í viðræðum við ríkisstjóra Veracruz, Fidel Herrera, og á fundum í háskóla ríkisins, hinum þriðja stærsta í landinu, og stofnun umhverfismála kom fram mikill áhugi á að hrinda í framkvæmd fjölmörgum samvinnuverkefnum við Íslendinga. Þar bar hæst rannsóknir á hafinu, bæði hafstraumum, fiskistofnum og lífríki hafsins, kortlagningu á jarðhita og hvernig slíkar auðlindir gætu nýst við framleiðslu á hreinni orku, sem og víðtæka samvinnu milli háskóla og vísindasamfélags.

Íbúar Veracruz eru um 7 milljónir og ríkið sker sig frá öðrum ríkjum Mexíkó vegna hinna fjölþættu auðlinda sem það býr yfir. Fidel Herrera ríkisstjóri sér fjölmörg tækifæri í samvinnu við Íslendinga og lýsti áhuga á að koma með sendinefnd til Íslands á næstu mánuðum til að kynna sér heildarskipulag sjávarútvegs og virkjun hreinna orkugjafa, sem og festa í sessi víðtæka samvinnu við íslenska háskóla.

Í umræðum að loknum fyrirlestri sem forseti Íslands flutti við háskólann í Veracruz kom fram að framtíð Golfstraumsins sem tengir Ísland við Veracruz væri lykilatriði varðandi loftslagsbreytingar og aukin samvinna Íslands og Veracruz á sviði vísinda, orkunýtingar og hafrannsókna hefði þess vegna bæði táknrænt og raunhæft gildi fyrir heiminn allan.

Í heimsókn forseta Íslands til Mexíkó voru undirritaðir samningar milli Háskólans í Reykjavík og háskóla í Mexíkó sem og milli íslensku orkuskólanna tveggja RES og REYST við þarlenda háskóla. Með hinum nýja samningi tengist Háskólinn í Reykjavík við net 117 háskóla í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó.

Þá flutti forseti Íslands ávarp á kynningarsamkomu sem Latibær efndi til í Mexíkóborg í tilefni af samningi Latabæjar við Wal-Mart verslunarkeðjuna í Mexíkó en hún er stærsta verslunarkeðja landsins. Sjónvarpsþættir Latabæjar verða sýndir í öflugustu sjónvarpsstöð Mexíkó og Wal-Mart mun beita sér fyrir heilsuátaki barnafjölskyldna og sölu á vörum sem tengjast Latabæ. Í Mexíkó er eitt hæsta hlutfall offitu meðal barna í veröldinni og vænta heilbrigðisyfirvöld mikils af framlagi Latabæjar og Wal-Mart.

Kynningarsamkoman var einstaklega glæsileg og sýndi ótvírætt hve langt Latibær hefur náð í landinu. Í ávarpi sínu benti forseti Íslands á að það væri ánægjuleg nýjung í opinberum heimsóknum þjóðhöfðingja að skemmti- og fræðsluefni fyrir börn skipaði svo ríkulegan sess í dagskránni. Menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og forystumaður heilbrigðisráðuneytisins í Mexíkó fluttu einnig ávörp á kynningarsamkomunni. Menntamálaráðherra átti auk þess fjölmarga fundi með ráðherrum landsins og forystumönnum í mennta- og menningarmálum.

Á öðrum degi heimsóknarinnar var ítarleg ráðstefna um orkumál í Mexíkóborg og sóttu hana fjölmargir fulltrúar stjórnvalda og orkufyrirtækja auk hinnar fjölmennu viðskiptasendinefndar sem fylgdi forseta í heimsókninni. Á ráðstefnunni var farið ítarlega yfir þau tækifæri sem bjóðast á næstu árum í nýtingu hreinnar orku í Mexíkó en stjórnvöld hafa sett landinu metnaðarfull markmið á því sviði.

Forseti Íslands flutti einnig fyrirlestur um loftslagsbreytingar, orkumál og reynslu Íslendinga við einn stærsta háskóla Mexíkó, Tecnológico de Monterrey. Fyrirlesturinn var afar fjölsóttur og sóttu hann bæði yfirmenn háskólans, prófessorar og nokkur hundruð stúdentar. Forseti svaraði fjölmörgum fyrirspurnum að fyrirlestri loknum.