Veftré Print page English

Heimsókn í Hrafnagilsskóla


Forseti og Dorrit Moussaieff forsetafrú heimsækja Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit á morgun, miðvikudaginn 27. febrúar. Hrafnagilsskóli hlaut Íslensku menntaverðlaunin árið 2007 í flokki skóla sem sinnt hafa vel nýsköpun og farsælu samhengi í fræðslustarfi.

 Fulltrúar nemenda, skólastjóri og kennarar Hrafnagilsskóla taka á móti forsetahjónunum kl. 9:00  í fyrramálið og kynna skólastarfið. Í kjölfarið heimsækja forsetahjón kennslustofur, kynna sér kennsluhætti sem og aðbúnað og viðhorf nemenda. Kl. 11:00 verður sérstök samverustund á sal skólans þar sem forseti mun ávarpa nemendur og svara spurningum þeirra. Nemendur munu flytja tónlist og önnur atriði. Áætlað er að heimsókninni ljúki kl. 12:00.

Í umsögn dómnefndar Íslensku menntaverðlaunanna um Hrafnagilsskóla sagði m.a.:
„Hrafnagilsskóli í Eyjafjarðarsveit hefur um árabil vakið athygli fyrir framsækni og farsælt skólastarf. Sýn skólans er sú að allir hafi hið góða í sér og möguleikann til að verða betri manneskjur. Þessi einkunnarorð endurspeglast í væntingum starfsfólks til nemenda. Virðing þeirra fyrir nemendum kemur fram í því hvernig þeir ræða við þá og hlusta á sjónarmið þeirra. Skólaheit nemenda er: „Ég kem í skólann til að læra og nýta hæfileika mína til fulls.“
Í daglegu skólastarfi fer fram umfjöllun um dygðir þar sem ábyrgð, góðvild og virðing eru kjarninn. Samverustundir allra nemenda eru fastur liður í skólastarfinu. Þar er rætt um dygð mánaðarins og nemendur á öllum aldri koma fram og kynna viðfangsefni sín og ræða mál sem þeim liggja á hjarta. Hafa nemendur fengið viðurkenningu fyrir góða hegðun utan skólans, t.d. á íþróttamótum.
Undir sterkri forystu stjórnenda hefur skólinn lagt áherslu á framsækni í kennsluháttum og námsmati. Nýjustu umbótaskref skólans felast í einstaklingsmiðuðum kennsluháttum, samkennslu, áformum nemenda um nám, námsmöppum, samvinnuprófum og sjálfsmati. Skólinn leggur metnað sinn í að taka vel á móti öllum nemendum og þykir taka einstaklega vel á móti nemendum sem hafa sértækar þarfir í námi.
Hrafnagilsskóli starfar í nánum tengslum við samfélagið. Almenn ánægja er meðal foreldra með skólastarfið og gildir þá einu hversu ríkar þarfir börn þeirra kunna að hafa. Foreldrar telja sig hafa gott aðgengi að starfsmönnum skólans en skólinn býður foreldrum og nemendum að kennarar komi í heimsókn á heimili þeirra til að ræða um nám og kennslu og væntingar til skólastarfsins. Náin samvinna er við leikskólann og tónlistarskólann og mánaðarlegt fréttablað skólans berst inn á hvert heimili í sveitarfélaginu.“