Veftré Print page English

Heimsráðstefna um orkumál


Forseti flutti í morgun ræðu á opnunarfundi Heimsráðstefnu um framtíð orkumála í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Forsetinn lýsti hvernig samvinna Íslands og Abu Dhabi gæti vísað öðrum þjóðum veginn í nýtingu hreinnar orku. Á sama hátt væri samvinna Íslands og hins fátæka Afríkuríkis Djíbútís fordæmi um samvinnu smárra ríkja. Fagnaðarefni væri að Abu Dhabi hefði nú áhuga á að styrkja samvinnu Íslands og Djíbútís. Þar með væru þessi þrjú smáu ríki – í Norður Atlantshafi, arabaheiminum og Afríku – að sýna veröldinni hvað hægt væri að gera. Ræða. Fréttatilkynning. Myndir

Heimsráðstefnuna um framtíð orkumála í Abu Dhabi sækja um 3.000 þátttakendur víða að úr veröldinni: Þjóðarleiðtogar, ráðherrar, forystumenn í fjármálum og viðskiptalífi, vísindamenn og sérfræðingar.

Í ræðu við setninguna lýsti þjóðarleiðtogi Abu Dhabi, Mohammed bin Zayed Al Nahyan, að landið hefði ákveðið að ráðstafa upphæð sem nemur um 1.000 milljörðum íslenskra króna í verkefni á sviði hreinnar orku. Einnig tilkynnti hann um stofnun Heimsverðlauna í orkumálum sem veita ætti árlega fyrir nýjungar á sviði hreinnar orku. Verðlaunaupphæðin myndi nema árlega jafnvirði um 150 milljóna íslenskra króna.

Í tengslum við Heimsráðstefnuna í Abu Dhabi voru forsetar Íslands og Djíbútís viðstaddir undirritun yfirlýsingar Reykjavík Energy Invest og orkuyfirvalda í Djíbútí og viljayfirlýsingu sem iðnaðarráðherra Íslands, Össur Skarphéðinsson og orkumálaráðherra Djíbútís Mohamed Ali Mohamed undirrituðu.

Með þessum yfirlýsingum er festur í sessi nýr áfangi í samvinnu Íslands og Djíbútís um nýtingu jarðhita í Austur-Afríku. Árangur þess samstarfs gæti gert Djíbútí að forysturíki í Afríku á sviði hreinnar orku.

Í viðræðum forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar og þjóðarleiðtoga Abu Dhabi, Mohammed bin Zayed Al Nahyan, kom fram ríkur áhugi hjá forystusveit Abu Dhabi á að efla samvinnu við Íslendinga einkum í gegnum orkufyrirtækið Masdar sem stofnað var sérstaklega til að styrkja ábyrga framtíðarþróun orkumála. Abu Dhabi hefur ákveðið að verja á næstu árum verulegum fjármunum í orkuverkefni víða um heim og telur tæknilega og þekkingarlega forystu Íslendinga mikils virði.

Fjöldi fulltrúa íslenskra orkufyrirtækja og fjármálastofnana tekur þátt í ráðstefnunni í Abu Dhabi og hafa þeir átt viðræður við fulltrúa fyrirtækja og stofnana sem sækja ráðstefnuna.