Verðlaun Forvarnardagsins
Forseti afhendir í dag, verðlaun
Forvarnardagsins. Þau eru veitt ungmennum sem tóku þátt í net-ratleik grunnskólanemenda á Forvarnardaginn 2007. Athöfnin verður á Bessastöðum kl. 14:00.
Verðlaunahafarnir eru frá Heiðarskóla í Leirársveit, Grunnskólanum á Þingeyri og Landakotsskóla. Þeir leystu verkefni sem samið var af fulltrúum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Ungmennafélagi Íslands og Bandalags íslenskra skáta.
Verkefnið snerist um þekkingu á starfsemi hreyfinganna sem byggði á því að kynna sér hana á heimasíðum þeirra. Hundruð grunnskólanemenda sendu inn réttar lausnir.
Forvarnardagurinn var haldinn um allt land þann 21. nóvember síðastliðinn. Sérstök dagskrá var í öllum 9. bekkjum grunnskólanna þar sem ungmenni tókust á við spurningar um aukna samveru foreldra og ungmenna, þátttöku í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi og mikilvægi þess að fresta því að hefja neyslu áfengis. Fylgi ungmenni nokkrum einföldum heillaráðum eru hverfandi líkur á því að þau leiðist inn á braut fíkniefna.
Forseti Íslands hafði frumkvæði að Forvarnardeginum en ásamt forsetaembættinu stóðu að deginum Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og lyfjafyrirtækið Actavis sem var styrktaraðili Forvarnardagsins.