Veftré Print page English

Forvarnardagur - heimsóknir í grunnskóla


Forvarnardagurinn verður haldinn á morgun miðvikudaginn 21. nóvember í öllum grunnskólum landsins. Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands Ólafur E. Rafnsson munu heimsækja Garðaskóla í Garðabæ kl. 9:50 og Lindaskóla í Kópavogi kl. 10:30.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri verður í Korpuskóla í Reykjavík, Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga í Grunnskólanum á Ísafirði, Helga Guðjónsdóttir formaður UMFÍ í Vallaskóla á Selfossi og Margrét Tómasdóttir skátahöfðingi í Hvaleyrarskóla í Hafnarfirði.

Í sérhverjum grunnskóla verður dagskrá um þau þrjú heilræði sem rannsóknir sýna að duga best sem forvarnir gegn fíkniefnum. Síðan munu nemendur skiptast í umræðuhópa og svara spurningum um hvert þessara þriggja atriða. Svörin verða grundvöllur að skýrslu sem kynnt verður víða á fyrstu mánuðum næsta árs. Einnig munu nemendur taka þátt í ratleik á netinu sem aðstandendur Forvarnardagsins hafa efnt til.

Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands og eru aðstandendur hans Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands og Bandalag íslenskra skáta. Hann er byggður á rannsóknum sem fram hafa farið við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Forvarnardagurinn er styrktur af lyfjafyrirtækinu Actavis.