Veftré Print page English

Forvarnardagurinn 2007 - Blaðamannafundur í Hagaskóla


Á morgun laugardaginn 17. nóvember kl 10:30 kynnir forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, áherslur Forvarnardagsins 21. nóvember 2007 ásamt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra, Halldóri Halldórssyni formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, Helgu Guðjónsdóttur formanni UMFÍ, Margréti Tómasdóttur skátahöfðingja, Róberti Wessman forstjóra Actavis og Sigríði Jónsdóttur fulltrúa Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.


Kynningin verður í Hagaskóla og munu nokkrir grunnskólanemar taka þátt í henni en þeir hafa verið valdir sem sérstakir talsmenn Forvarnardagsins.


Forvarnardagurinn var í fyrsta sinn haldinn í fyrra undir kjörorðinu „Taktu þátt! Hvert ár skiptir máli“. Á Forvarnardeginum nú er megináhersla lögð á að koma því til skila sem áratugalangar rannsóknir íslenskra fræðimanna við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík hafa sýnt að skili mestum árangri í forvörnum gegn fíkniefnum.


Í tilefni dagsins verður dagskrá í öllum 9. bekkjum landsins þar sem ungmenni takast á við lykilspurningar sem snúast um þátttöku þeirra í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi, samveru með fjölskyldu og mikilvægi þess að fresta áfengisdrykkju til að forðast að verða fíkniefnum að bráð á síðari stigum.


Aðstandendur Forvarnardagsins, sem skipulagður er að frumkvæði forseta Íslands, eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og lyfjafyrirtækið Actavis sem er aðalstuðningsaðili verkefnisins. Grunnskólar í öllum landshlutum taka þátt í því.