Veftré Print page English

Jónas - Hátíðarhöld


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson tekur á morgun, föstudaginn 16. nóvember, þátt í hátíðarhöldum á Norðurlandi í tilefni af því að 200 ár eru liðin frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar.

Um morguninn verður forseti á samkomu í Þelamerkurskóla á Laugalandi og afhendir nemendum fyrstu eintökin af nýrri bók Böðvars Guðmundssonar um Jónas Hallgrímsson. Öllum nemendum 10. bekkjar í grunnskólum landsins verða afhent eintök af ævisögunni sem er gjöf frá Menningarfélaginu Hrauni í Öxnadal og styrkt af sparisjóðum. Samkoman hefst klukkan 10:00.

Eftir hádegið verður athöfn á fæðingarstað Jónasar Hallgrímssonar, Hrauni í Öxnadal, þar sem forseti opnar minningarstofu um skáldið og náttúrufræðinginn Jónas Hallgrímsson. Í minningarstofunni er brugðið upp myndum úr ævi Jónasar og lýst áhrifum hans á íslenska menningu og sögu. Á Hrauni í Öxnadal hefur auk minningarstofunnar verið innréttuð íbúð fyrir skáld, rithöfunda og fræðimenn og opnaður fólkvangur, útivistarsvæði fyrir almenning. Það er Menningarfélagið Hraun í Öxnadal sem hefur haft forgöngu um minningarstofuna, gestaíbúðina og fólkvanginn. Opnunarathöfnin á Hrauni í Öxnadal hefst kl. 13:15.

Nánari upplýsingar um þessa atburði á Norðurlandi og verkefni sem Menningarfélagið Hraun í Öxnadal hefur beitt sér fyrir veitir Tryggvi Gíslason, fyrrverandi skólameistari.