Veftré Print page English

Fyrirlestur í New Orleans


Forseti flutti í dag fyrirlestur á ársþingi bandarísku samtakanna um jarðvegsvísindi (Soil Science Society of America) og fleiri samtaka en þingið er haldið í New Orleans. Það sækja um 3.000 vísindamenn og sérfræðingar, einkum frá Bandaríkjunum. Fyrirlestur forseta var tekinn upp fyrir nokkrum dögum og fluttur á skjávarpa. Á eftir svaraði forseti símleiðis fyrirspurnum ráðstefnugesta.

Í fyrirlestrinum fjallaði forseti um hvernig hættan á loftslagsbreytingum kallaði á breytingar í orkubúskap heimsbyggðar og ný viðhorf varðandi landgræðslu og baráttu gegn eyðingu landgæða. Hann nefndi fjölmörg dæmi úr reynslu Íslendinga við að þróa nýtingu hreinnar orku, einkum á sviði jarðhita og við að ná árangri í markvissri landgræðslu, en stærsta eyðimörk Evrópu er á Íslandi og þjóðin hefur í hundrað ár stundað skipulagða landgræðslu.

Forseti lagði áherslu á hvernig þessi reynsla gæti nýst öðrum löndum og rakti í lok erindisins helstu atriði í aðgerðaáætlun sem hann kynnti fyrst í fyrirlestri sem haldinn var á alþjóðlegu þingi á Selfossi í september þegar fagnað var hundrað ára afmæli Landgræðslu ríkisins.

Hægt verður að horfa á fyrirlestur forseta í New Orleans á heimasíðu forsetaembættisins, forseti.is, innan skamms.

Sækja upptöku með fyrirlestri forseta (athugið að skráin er um 76 MB).