Veftré Print page English

Umhverfisverðlaun Norðurslóða - Jarðhiti í Alaska


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson tók í gærkvöldi, miðvikudaginn 17. október, við viðurkenningu fyrir forystu um samstarf og sjálfbæra þróun á Norðurslóðum. Þessi umhverfisverðlaun Norðurslóða voru veitt við hátíðlega athöfn í Anchorage í Alaska að viðstöddum fjölmörgum þátttakendum á alþjóðlegri ráðstefnu um orkumál á Norðurslóðum og forystumönnum Alaskaríkis.

Verðlaunin bera heitið The Robert O. Anderson Sustainable Arctic Award og eru veitt af Norðurstofnuninni (Institute of the North) sem hefur aðalstöðvar í Anchorage.

Stofnandi hennar er Walter J. Hickel fyrrum ríkisstjóri í Alaska og innanríkisráðherra í ríkisstjórn Nixons Bandaríkjaforseta. Hann afhenti forseta Íslands verðlaunin og sagði að þau væru veitt fyrir ötula framgöngu um málefni Norðurslóða á undanförnum árum og baráttu fyrir aukinni samvinnu íbúa á Norðurslóðum, sjálfbærri þróun og verndun náttúrunnar. Forseti hefði gegnt lykilhlutverki við að móta Hið nýja norður, en það væri samheiti yfir breyttar áherslur í samstarfi fólks á Norðurslóðum.

Forseti hefur undanfarna daga tekið þátt í alþjóðlegri orkuráðstefnu, Arctic Energy Summit, sem haldin er í tilefni af Alþjóðlega heimskautaárinu (International Polar Year). Ráðstefnuna sækir fjöldi sérfræðinga, vísindamanna og áhrifamanna frá Bandaríkjunum, Rússlandi, Kanada og Norðurlöndum.

Forseti flutti ræðu á opnunarfundi ráðstefnunnar ásamt ríkisstjóra Alaska Sarah Palin og Öldungadeildarþingmanninum Lisa Murkowski. Einnig flutti erindi á opnunarfundinum Jevgeni Velikhov, einn helsti áhrifamaður rússneska vísindasamfélagsins. Forseti hefur einnig setið málstofur og stýrt umræðum á ráðstefnunni.

Þá hefur forseti átt fundi með ýmsum áhrifamönnum í Alaska þar sem hann hefur kynnt sögu jarðhitanýtingar á Íslandi, hlutverk jarðhita í orkubúskap þjóðarinnar og hvernig hann hefur orðið grundvöllur margvíslegrar atvinnustarfsemi. Aðstæður í Alaska eru um margt áþekkar og á Íslandi. Til umræðu hefur verið hvernig nýta eigi jarðhita í Spurr-fjalli í nágrenni Anchorage en þar mætti leggja reynslu Reykjavíkur af virkjunum á Nesjavöllum og Hellisheiði til grundvallar.

Meðal þátttakenda í ráðstefnunni og fundum forseta í Alaska hafa verið fulltrúar íslenskra stofnana og fyrirtækja. Umræðum á hinni alþjóðlegu orkuráðstefnu hefur verið sjónvarpað beint á veraldarvefnum á slóðinni www.arcticportal.org og þar má finna gögn henni tengd.