Veftré Print page English

Hið nýja Kína í hnotskurn


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson lauk ferð sinni til Kína með því að heimsækja Shenzhen og Hong Kong, en þessar borgir eru hvor með sínum hætti fulltrúar fyrir þær miklu breytingar sem eru að skapa Kína nýja stöðu á heimsvettvangi.

Shenzhen var fyrir tæpum þrjátíu árum fátækt samfélag bænda og sjómanna en er nú fimmta stærsta borg í Kína, miðstöð hátækni, viðskipta og hönnunar. Í borginni búa um 8 milljónir manna sem þangað hafa flust hvaðanæva úr Kína, einkum ungt fólk, fulltrúar nýrrar kynslóðar og nýrra tíma. Hinar glæsilegu byggingar borgarinnar, sem flestar hafa risið á síðustu tíu til fimmtán árum, minna um margt á þann glæsileika sem einkennir stórborgir Bandaríkjanna.

Í heimsókn sinni til Shenzhen átti forseti árangursríkar viðræður við borgarstjórann og ræddu þeir m.a. um samvinnu íslenskra og kínverskra fyrirtækja. Borgarstjórinn bauðst til að greiða götu slíks samstarfs og var rætt um að skapa ungu kínversku og íslensku listafólki og hönnuðum tækifæri til sýna verk sín með sérstökum menningarhátíðum og listsýningum.

Þá var forseta boðið í heimsókn til nýrrar kauphallar Shenzhen borgar sem ætlað er að verða miðstöð kauphallarviðskipta í hinu nýja Kína. Forseti opnaði viðskipti dagsins með því að slá hamri í risastóra bjöllu sem er tákn kauphallarinnar. Að því loknu átti hann viðræður við forystusveit kauphallarinnar um þróun nútímaviðskipta í Kína og samstarf við kauphallir á Norðurlöndum.

Því næst heimsótti forseti síma- og fjarskiptafyrirtækið Huawei sem er eitt hið stærsta í heiminum í þeirri grein. Huawei hefur átt margvíslega samvinnu við íslensku símafyrirtækin og hefur nýlega opnað útibú á Íslandi. Á fundinum var rætt um að samvinna við Íslendinga skapaði fjölmörg tækifæri til að þróa nýja tækni í fjarskiptum. Sem dæmi væri verkefni sem nú er í gangi á Íslandi og á að auðvelda farsímanotkun í dreifbýli og óbyggðum sem og á hafi úti, allt að 60 km frá ströndum landsins. Þetta er samvinnuverkefni Vodafone á Íslandi og Huawei og getur skilað stórbættri þjónustu við Íslendinga, einkum bændur, sjómenn og íbúa smærri byggðarlaga.

Í Hong Kong átti forseti viðræðufund með Donald Tsang leiðtoga Hong Kong borgar og var þar meðal annars rætt um þörfina á umhverfisvænum háhýsum og skrifstofubyggingum sem krefjast mun minni orku en hingað til hefur tíðkast. Í því sambandi lýsti forseti hinni nýju umhverfisvænu byggingu sem dótturfyrirtæki Eimskips hefði reist í Leeds. Forseti Íslands opnaði hana formlega við hátíðlega athöfn í síðasta mánuði. Donald Tsang lýsti miklum áhuga á að kynna sér nánar þær aðferðir sem hefðu verið nýttar í þeirri byggingu en hún þarfnast einungis fimmtungs þeirrar orku sem hefðbundnar skrifstofubyggingar nota.

Þá hitti forseti fjölmarga Íslendinga sem nýlega hafa flutt til Hong Kong og eru að hasla sér völl í borginni, sat kvöldverð í boði Landsbankans sem er að opna útibú í Hong Kong og tók þátt í fundi Íslensk-kínverska verslunarráðsins.

Auk þessara viðburða var forseti viðstaddur þegar íslenska tölvufyrirtækið Mind kynnti í Hong Kong fyrstu tölvuna sem hönnuð er sérstaklega fyrir börn á aldrinum þriggja til átta ára. Hún er án hefðbundins lyklaborðs og miðuð við að þróa hugmyndaflug og leikni barna sem ekki eru enn orðin læs.

Í Shenzhen sótti forseti ásamt varaborgarstjóra Shenzhen kynningu íslenska fyrirtækisins Medialite á nýrri gerð ljósaskilta sem eru mun umhverfisvænni en hefðbundin neonskilti.