Jarðhitasamvinna Íslands og Kína
Í fjölþættri dagskrá forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar í Xian Yang borg og Shaanxi fylki í Kína í gær, sunnudaginn 7. október, kom fram eindreginn vilji kínverskra ráðamanna til að stórefla samvinnu við Ísland um jarðhitanýtingu. Fyrsti áfangi hitaveitunnar í Xian Yang sem reist er í samvinnu Glitnis, Orkuveitu Reykjavíkur og Enex við Sinopec, þriðja stærsta orkufyrirtæki Kína, sýnir að raunhæft er að hefjast nú þegar handa um undirbúning næstu áfanga. Kínversk stjórnvöld hafa valið borgina sem miðstöð jarðhitanýtingar í Kína og vilja gera hana að sýnishorni þess sem hægt er að gera víða í Kína.
Á fundi forseta Íslands með forseta Kína Hu Jintao fyrir nokkrum dögum lýsti forseti Kína eindregnum stuðningi við þessa samvinnu enda væri hún veigamikið framlag til að breyta orkubúskap Kínverja í átt til hreinnar orku.
Dagskrá forseta Íslands hófst með viðræðum við yfirvöld borgarinnar og málþingi um jarðhitanýtingu. Meðal þátttakenda í því voru æðstu stjórnendur Sinopec orkufyrirtækisins sem komu sérstaklega til borgarinnar í þessu skyni. Þeir lýstu eindregnum vilja fyrirtækisins til að stórefla samstarf við Íslendinga á sviði jarðhitanýtingar.
Forseti Íslands skoðaði þvínæst hina nýju hitaveitu í Xian Yang en aðeins eru tvö ár liðin frá því undirritaðir voru samningar um það verkefni þegar forseti kom í opinbera heimsókn til Kína. Lýstu heimamenn mikilli ánægju með hversu hratt og vel framkvæmdirnar hefðu gengið og kynntu forseta hvernig áformað væri að stækka hitaveituna frá einu hverfi til annars á næstu árum. Nú þegar hefði framkvæmdin sýnt að hún gæti orðið öðrum borgum fyrirmynd. Táknrænt væri að kolakyndistöðin væri nú horfin og í staðinn væri komin hrein stjórnstöð hitaveitunnar. Framkvæmdin myndi bæði draga úr mengun í borginni og bæta heilbrigði íbúanna auk þess að vera rekstrarlega afar hagkvæm.
Þá tók forseti þátt í glæsilegri vígsluathöfn nýrrar jarðhitadeildar við Orkuháskóla Shaanxi fylkis. Heimamenn binda miklar vonir við samstarf deildarinnar við Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfað hefur á Íslandi um árabil. Mikill fjöldi nemenda og kennara orkuskólans var viðstaddur athöfnina og var þessum nýja áfanga í jarðhitasamvinnu landanna fagnað innilega.
Í gærkvöldi átti forseti fund með ríkisstjóra Shaanxi fylkis þar sem ítarlega var rætt um næstu áfanga í jarðhitasamvinnu Shaanxi við Ísland. Forseti lagði áherslu á að ítarleg úttekt yrði gerð á jarðhitamöguleikum fylkisins með það að markmiði að tryggja sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar. Í öðru lagi yrði hitaveituframkvæmdum hraðað eftir föngum og í þriðja lagi yrði efld samvinna vísindamanna og sérfræðinga á þessu sviði.
Ríkisstjórinn fagnaði mjög þessum hugmyndum enda væru miklar jarðhitaauðlindir í fylkinu og brýnt væri að nýta þær í samræmi við nýjar umhverfisáherslur kínverskra stjórnvalda. Hin hraða efnahagsþróun landsins kallaði á stóraukna orkunýtingu og mikilvægt væri að auka verulega vægi hreinnar orku.