Veftré Print page English

Sókn íslenskra fyrirtækja í Kína


Á fundi forseta Kína Hu Jintao með forseta Íslands Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir fáeinum dögum hvatti hann íslensk fyrirtæki til að taka ríkulegan þátt í efnahagslegri þróun landsins. Forseti Kína nefndi í því sambandi fjölmörg svið þar sem æskilegt væri að íslensk fyrirtæki létu að sér kveða.


Síðustu daga hefur forseti Íslands tekið þátt í ýmsum atburðum með íslenskum fyrirtækjum og kínverskum samstarfsaðilum þeirra sem staðfesta að sú sýn sem fram kom í orðum forseta Kína byggir á traustum grunni. Samstarfssviðin eru nú þegar orðin mörg og fjölbreytt en eiga það öll sameiginlegt að byggja á íslenskri þekkingu, tæknikunnáttu, rannsóknum og reynslu.


Í morgun var forseti Íslands viðstaddur undirritun samninga milli íslenska líftæknifyrirtækisins ORF og stærsta lyfjafyrirtækis Kína Sinopharm. Samningurinn felur í sér að hið risavaxna kínverska fyrirtæki mun nýta sér prótein sem ORF framleiðir úr byggi, en sú aðferð opnar nýja möguleika í lyfjaframleiðslu og þróun lyfja. Forseti Íslands fagnaði þessum áfanga því hann fæli í sér mikla viðurkenningu fyrir vísindasamfélagið á Íslandi, rannsóknir sem stundaðar hefðu verið í íslenskum háskólum og árangursríkt samstarf íslenskra sérfræðinga við alþjóðleg rannsóknarsetur. Samningurinn væri því eindregin traustsyfirlýsing við íslenskt þekkingarsamfélag en aðferð ORF er íslensk uppfinning.


Síðar í dag var forseti viðstaddur þegar Bakkavör skrifaði undir samning um framleiðslu matvæla á stóru landsvæði sem fyrirtækið fær til umráða í Shaanxi héraði.


Í gær opnaði forseti nýjar kæligeymslur Eimskips í Qingdao sem verða hinar stærstu í Asíu og veigamikill áfangi í að styrkja forystu félagsins í flutningum á heimsvísu. Í ræðu við það tækifæri minnti forseti á að rætur Eimskips væru í baráttu Íslendinga fyrir efnahagslegu sjálfstæði snemma á síðustu öld. Nú væri félagið að sýna hverju lítil þjóð gæti áorkað í hagkerfi nýrrar aldar.


Sama dag tók forseti þátt í opnun höfuðstöðva Marel í Asíu sem verða í Qingdao. Þeim er ætlað að stýra sókn fyrirtækisins í þessum heimshluta. Þá var einnig undirritaður samningur milli Faxaflóahafna og hafnarinnar í Qingdao, en hún er þriðja stærsta höfnin í Kína og meðal tíu stærstu hafna í veröldinni. Sá samningur skapar íslenskum fyrirtækjum margvísleg sóknarfæri í Kína.


Í fyrradag, föstudaginn 5. október, tók forseti þátt í hátíðarsamkomu í Shanghai í tilefni þess að höfuðstöðvar fyrirtækisins Össurar í Asíu voru opnaðar í borginni. Um leið var fagnað samstarfi fyrirtækisins við Landssamband fatlaðra í Kína en í sambandinu eru um þrjár milljónir fatlaðra einstaklinga.


Við öll þessi tækifæri voru viðstaddir fjölmargir kínverskir áhrifamenn, bæði æðstu stjórnendur borga og héraða.


Auk þess sem hér greinir sat forseti Íslands morgunverðarfund í boði Viðskiptaráðs Íslands og Kína og svaraði fyrirspurnum. Verulega hefur fjölgað þeim fyrirtækjum sem aðild eiga að ráðinu en framkvæmdastjóri þess er Pétur Yang, starfsmaður sendiráðs Íslands í Beijing.