Veftré Print page English

Íslensku þátttakendurnir á Special Olympics - Alþjóðleg ráðstefna um velferð þroskaheftra


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú fylgdust í dag með keppni íslensku þátttakendanna á Special Olympics í Shanghai og heimsóttu keppnisstaði. Í kvöld tóku þau þátt í sérstakri fjölskylduhátíð sem haldin var til heiðurs íslensku keppendunum, fjölskyldum þeirra, þjálfurum og fararstjórum Íþróttasambands fatlaðra. Í gær kynnti forseti sérstaka yfirlýsingu sem samþykkt var við lok alþjóðlegrar ráðstefnu um velferð þroskaheftra, en hana sóttu um 1.000 áhrifamenn og sérfræðingar hvaðanæva úr veröldinni.

Mikil ánægja og gleði ríkir meðal íslensku þátttakendanna og fjölskyldna þeirra. Leikarnir eru þeim einstakt ævintýri og hin glæsilega opnunarhátíð ógleymanleg. Í samræðum við forsetahjónin lýstu margir keppendur því að heimsmótið í Shanghai væri hápunkturinn á ferli þeirra innan Íþróttasambands fatlaðra.

Á setningarathöfn leikanna voru um 80.000 áhorfendur en henni var jafnframt sjónvarpað til 80 landa og er talið að um milljarður manna hafi horft á hana. Forseti Íslands sat í heiðursstúku við hlið forseta Kína og fögnuðu þeir báðir hinum íslensku þátttakendum þegar þeir gengu inn á leikvanginn. Keppendur frá 165 þjóðum taka þátt í leikunum.

Hin alþjóðlega ráðstefna um hagsmuni og velferð þroskaheftra var haldin í gær í framhaldi af setningu leikanna og höfðu forseti Íslands og Deng Pufang, formaður Landssambands fatlaðra í Kína, veg og vanda af undirbúningi hennar. Fjöldi þjóðarleiðtoga og áhrifamanna fluttu ræður á ráðstefnunni og tóku þátt í pallborðsumræðum. Meðal ræðumanna voru Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri Kaliforníu, Gloria Macapagal-Arroyo forseti Filippseyja, Ann Veneman, framkvæmdastjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, Margaret Spellings menntamálaráðherra Bandaríkjanna og kínverskir ráðherrar.

Í ályktun ráðstefnunnar sem forseti Íslands kynnti við lok hennar er lýst mikilvægi þess að styrkja menntun og íþróttastarf þroskaheftra og stuðla að jafnrétti þeirra í hvívetna, bæta heilbrigðisþjónustu og efla stuðning við fjölskyldur þeirra sem og tækifæri til þátttöku í atvinnulífinu. Einnig væri nauðsynlegt að efla rannsóknir á stöðu þroskaheftra í einstökum löndum og hvernig hagsmunum þeirra er sinnt af stofnunum samfélagsins og hvaða réttur þeim er tryggður með lögum.

Jafnframt var kínverskum stjórnvöldum þakkað fyrir hve veglega þau hefðu staðið að Heimsleikum Special Olympics en í því fælust veigamikil skilaboð til heimsbyggðarinnar um getu þroskaheftra einstaklinga og mikilvægis þess að tryggja jafnrétti þeirra á öllum sviðum.

Í dag átti forseti Íslands sérstakan fund með borgarstjóranum í Shanghai, Han Zheng sem efndi síðan til hádegisverðar til heiðurs forseta Íslands. Á fundinum var meðal annars fjallað um nauðsyn þess að borgir tækju forystu í notkun umhverfisvænna bifreiða og lýsti borgarstjórinn þeirri stefnu sinni að allir bílar í borginni yrðu í framtíðinni knúnir með rafmagni. Forseti Íslands kynnti honum nýlega ráðstefnu sem haldin var í Reykjavík um umhverfisvæna umferð í borgum og lýsti borgarstjóri Shanghai áhuga á að taka þátt í slíkri ráðstefnu í Reykjavík að ári.

Að því loknu heimsótti forseti Íslands Fudan háskóla í Shanghai, hélt erindi um samvinnu Íslands og Kína á sviði orkunýtingar og svaraði spurningum stúdenta í líflegum umræðum sem fram fóru að loknu erindinu.