Veftré Print page English

Fundur með forseta Kína - Special Olympics


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson mun á morgun, þriðjudaginn 2. október, eiga fund með forseta Kína Hu Jintao í Shanghai og vera um kvöldið viðstaddur opnunarhátíð Heimsleika Special Olympics.

Forseti Íslands verður í Kína í boði forseta Kína og mun auk þátttöku í Special Olympics meðal annars heimsækja Xianyang þar sem Íslendingar eru í samvinnu við Kínverja um byggingu hitaveitu og einnig hafnarborgina Quingdao þar sem mörg íslensk fyrirtæki hafa haslað sér völl. Undir lok heimsóknar sinnar til Kína mun forseta heimsækja Shenzhen borg en ferðinni lýkur í Hong Kong.

Special Olympics eru íþróttahátíð seinfærra og þroskaheftra íþróttamanna og munu um 8.000 þátttakendur frá 165 löndum taka þátt í leikunum. Fjölmenn sveit Íslendinga verður þar á meðal en Íþróttasamband fatlaðra hefur skipulagt þátttöku þeirra. Special Olympics samtökin voru stofnuð af Eunice Kennedy-Shriver, systur John F. Kennedy Bandaríkjaforseta, og hafa þau á undanförnum áratugum orðið ein öflugasta íþrótta- og samhjálparhreyfing í veröldinni. Þau hafa átt ríkulegan hlut í að gjörbreyta viðhorfum til getu þroskahefts fólks. Forseti Íslands hefur á undanförnum árum setið í heimsstjórn Special Olympics.

Heimsleikarnir í Shanghai verða stærsta íþróttahátíð heims á árinu 2007 og mun forseti Kína Hu Jintao setja leikana. Í tengslum við þá verður ráðstefna um framtíðarþróun íþróttastarfs meðal þroskahefts fólks og hvernig það getur stuðlað að aukinni samhjálp og gagnkvæmum skilningi meðal þjóða heims. Meðal þátttakenda í ráðstefnunni verður fjöldi áhrifamanna og sérfræðinga víða að úr veröldinni. Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hefur ásamt Deng Pufang, formanni Íþróttasambands fatlaðra í Kína, annast undirbúning ráðstefnunnar. Deng Pufang er sonur Deng Xiaoping sem var á sínum tíma leiðtogi Kínverja og kom á grundvallarbreytingum í efnahagskerfi landsins.

Á fundi forseta Íslands með forseta Kína Hu Jintao á morgun verður fjallað um samvinnu þjóðanna á ýmsum sviðum meðal annars hvernig Íslendingar geta lagt Kínverjum lið í baráttunni gegn vaxandi mengun í stórborgum Kína og þá einkum með nýtingu hreinna orkulinda sem víða má finna í landinu. Einnig verður rætt um þann árangur sem náðst hefur á sviði viðskipta og vísinda í kjölfar opinberrar heimsóknar forseta Íslands til Kína fyrir tveimur árum.