Veftré Print page English

Heimsþing Clintons


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson var meðal frummælenda í umræðum um loftslagsbreytingar og orkumál á heimsþingi Bills Clintons fyrrum Bandaríkjaforseta, Clinton Global Initiative. Heimsþingið fer fram þessa dagana í New York og það sækja þjóðarleiðtogar víða að úr veröldinni, forystumenn alþjóðastofnana, vísindamenn, sérfræðingar, áhrifafólk í baráttusamtökum og fulltrúar fjölmiðla.

Á heimsþinginu er fjallað um ýmis brýn vandamál sem efst eru á baugi og þar hefur farið fram víðtæk umræða um áhrif orkubúskapar heimsins á loftslagsbreytingar.

Í umræðunum lagði forseti Íslands áherslu á að fordæmi Íslendinga sýndi að hægt er á fáeinum áratugum að hverfa frá notkun olíu og kola við framleiðslu á rafmagni og húshitun og festa í staðinn í sessi orkubúskap sem byggist á nýtingu hreinna orkugjafa. Þá rakti forseti einnig ýmis samstarfsverkefni sem Íslendingar taka þátt í víða um heim og nefndi sérstaklega hitaveituverkefnið í Kína sem sýndi að hægt er að draga stórfelldlega úr mengun í kínverskum borgum með því að hverfa frá kyndingu með kolum og byggja í staðinn öflugar hitaveitur.