Vitnisburður í Öldungadeild Bandaríkjaþings
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í morgun í boði orkunefndar Öldungadeildar Bandaríkjaþings ítarlegan vitnisburð um nýtingu jarðhita, reynslu Íslendinga og tækifæri á þessu sviði í framtíðarorkubúskap Bandaríkjanna. Að loknum inngangi forsetans svaraði hann spurningum Öldungadeildarþingmanna frá ýmsum ríkjum Bandaríkjanna og úr báðum flokkum. Forsetinn lagði fram ítarlega skriflega greinargerð sem unnin var í samstarfi við fjölda íslenskra sérfræðinga og stofnana og var greinilegt að Öldungadeildarþingmennirnir höfðu kynnt sér hana rækilega. Þorkell Helgason orkumálastjóri mætti ásamt forsetanum á fund nefndarinnar en hann átti ríkan þátt í undirbúningi þeirrar skriflegu greinargerðar sem lögð var fram og var til taks varðandi tæknilegar upplýsingar.
Í máli forseta kom fram að Ísland og Bandaríkin gætu eflt mjög samvinnu sína á þessu sviði og slíkt yrði til styrktar bæði háskólum og rannsóknarstofnunum sem og að opna ný viðskiptatækifæri fyrir orkufyrirtæki og fjárfesta í báðum löndunum.
Forseti nefndi sérstaklega sjö svið þar sem slík samvinna í vísindum, tækni og viðskiptum gæti skilað miklum árangri á næstu árum.
Í fyrsta lagi samvinna í jarðvísindum, í mati á háhita- og lághitasvæðum og varðandi nýja möguleika sem gefast með djúpborunartækni.
Í öðru lagi með því að nýta aðferðir sem þróaðar hafa verið í olíuiðnaði og gasvinnslu og styrkja þannig þá bortækni sem nýst getur í þágu jarðhitavinnslu.
Í þriðja lagi að styrkja enn frekar samstarf íslenskra og bandarískra aðila um það djúpborunarverkefni sem nýlega var ákveðið að ýta úr vör en árangur þess gæti haft í för með sér byltingarkenndar breytingar í jarðhitanýtingu víða um heim.
Í fjórða lagi að rannsaka og þróa nánar stjórn á nýtingu jarðhitaauðlinda til að koma í veg fyrir að gengið sé á orkuforðann.
Í fimmta lagi að gera fullkomnari líkön af jarðhitakerfum og styðjast í þeim efnum meðal annars við aðferðir sem þróaðar hafa verið af Lawrence Berkeley rannsóknarstöðinni í Kaliforníu en margir íslenskir vísindamenn hafa tekið þátt í þeim verkefnum.
Í sjötta lagi að skapa grundvöll fyrir fjárfestingar íslenskra orkufyrirtækja, banka og fjárfesta innan Bandaríkjanna með því að styrkja samvinnu við bandarísk orkufyrirtæki, stjórnir einstakra fylkja og borga.
Í sjöunda lagi að styðja við samstarfsverkefni íslenskra og bandarískra vísindamanna varðandi bindingu koltvísýrings í basaltlögum í iðrum jarðar.
Í málflutningi þingmanna Öldungadeildarinnar kom fram eindreginn stuðningur við að kanna slíka samvinnu og styrkja hana með löggjöf og fjárveitingum af hálfu Bandaríkjaþings. Þeir tóku af öll tvímæli um að samvinna við Íslendinga væri lykilatriði í þessum efnum og fóru mjög lofsamlegum orðum um þann árangur sem Íslendingar hafa náð.
Forseti Íslands kvað það vera mikla viðurkenningu fyrir starf Íslendinga á undanförnum áratugum á sviði jarðhitanýtingar að sér hefði verið boðið að bera vitnisburð fyrir nefndinni og slíkt væri mikil meðmæli með því mikla starfi sem í meira en hálfa öld hefði verið unnið í íslenskum hitaveitum og orkufyrirtækjum, í stjórnum einstakra bæjarstjórna og sveitarfélaga á Íslandi og innan íslenska vísindasamfélagsins, bæði á vettvangi háskólanna og einstakra rannsóknarstofnana.
Við lok samræðnanna minnti forseti á að þegar Bandaríkjamenn stefndu til tunglsins hefðu þeir sent geimfarana í þjálfun á Íslandi og það væri vel við hæfi að nefndarmenn myndu heimsækja Ísland og kynna sér enn frekar árangur landsins þegar nú væri lagt upp í mikilvæga vegferð sem hefði að markmiði að gjörbreyta orkubúskap Bandaríkjanna, efla nýtingu hreinnar orku og um leið styrkja þjóðaröryggi og efnahagslíf Bandaríkjanna.
Vitnisburði forseta Íslands og samræðum við nefndarmenn var sjónvarpað um allar skrifstofur Öldungadeildarinnar og þær verða aðgengilegar á vefsetri þingsins. Hin skriflega greinargerð og málflutningur forseta verða hluti af þeim gagnabanka sem nefndin og þingið munu nýta sér á næstu vikum og mánuðum við nánari stefnumótun og ákvarðanir.
Hin skriflega greinargerð forseta sem ber heitið
A Clean Energy Future for the United States: The Case for Geothermal Power Testimony by the President of Iceland Ólafur Ragnar Grímsson er aðgengileg á vef forsetaembættisins.