Veftré Print page English

Fyrirlestur við Harvard - Vitnaleiðsla í Bandaríkjaþingi


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flytur síðar í dag opnunarfyrirlestur í nýrri röð fyrirlestra við Harvard háskólann í Boston. Fyrirlestraröðinni sem ber heitið Framtíð orkunnar (The Future of Energy) er ætlað að opna nýja sýn á skipan orkumála á 21. öldinni og hvernig hægt er að virkja nýjar orkulindir svo að efnahagslegar framfarir jarðarbúa leiði ekki til hættulegra breytinga á loftslagi veraldar. Fyrirlesturinn verður fluttur kl. 17 að staðartíma í Science Center Lecture Hall B.

Fyrr um daginn mun forseti eiga fundi með dr. Daniel Schrag forstöðumanni Umhverfismiðstöðvar Harvard háskóla og stúdentum við skólann.

Á morgun, miðvikudaginn 26. september, kl. 10 að staðartíma mun forseti flytja í Washington vitnisburð fyrir orkunefnd Öldungadeildar Bandaríkjaþings (Committee on Energy and Natural Resources; fundarsalur 366 í Dirksen Senate Office Building) í vitnaleiðslum nefndarinnar (Senate Hearing) í tengslum við frumvarp um stórfellda eflingu á nýtingu jarðhita í Bandaríkjunum. Forsetinn mun svara fyrirspurnum Öldungadeildarþingmanna en slíkar yfirheyrslur eru reglubundinn þáttur í stefnumótun og löggjafarstarfi Bandaríkjaþings.