Veftré Print page English

Heimsókn til Leeds - umhverfisvæn skrifstofubygging


Í kvöld situr forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson kvöldverð í boði borgarstjórnar Leeds en á morgun mun hann taka þátt í fjölbreyttri dagskrá í borginni.

Í fyrramálið 11. september mun hann ávarpa morgunverðarfund sem skipulagður er af ræðismanni Íslands í Leeds, Mark Warburton, og verður fundurinn haldinn í ráðhúsi borgarinnar. Þátttakendur í honum verða ýmsir áhrifamenn í viðskiptalífi Leeds. Í kjölfarið mun forseti heimsækja háskólann í borginni og eiga viðræður við rektor Leedsháskóla, Michael Arthur, skoða bókasýningu í safni skólans í fylgd Andrew Wawn og Rory McTurk en þeir hafa báðir í áratugi sinnt rannsóknum á íslenskum fræðum.

Í hádeginu mun forseti opna nýja skrifstofubyggingu fyrirtækisins Innovate, dótturfélags Eimskips, en byggingin er umhverfisvænasta skrifstofubygging í Bretlandi. Hún markar tímamót í viðleitni fyrirtækja til að draga úr koltvísýringsmengun í andrúmsloftinu og leggja þannig sinn skerf til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum. Byggingin sem nefnd er „Green Office“ hefur hlotið hæstu einkunn svonefndra BREEM staðla sem leggja mat á hve umhverfisvænar skrifstofubyggingar eru. Byggingin aflar meðal annars að mestu leyti sinnar eigin orku, nýtir rigningarvatn á sérstakan hátt og verulegur hluti steypunnar er úr endurunnum efnum.

Síðdegis mun forseti heimsækja grunnskóla í Leeds, Robin Hood Primary School, sem tekið hefur upp samstarf við grunnskóla á Selfossi.