Veftré Print page English

Jarðhitaráðstefna í New York - Fyrirlestur um stöðu smáríkja


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í morgun opnunarræðu á ráðstefnu um jarðhita og orkunýtingu sem haldin er í New York. Í ræðu sinni fjallaði forseti um reynslu Íslendinga í nýtingu jarðhita og þau tækifæri sem væru í Bandaríkjunum og víða um heim til að byggja orkuver sem nýttu sér tæknikunnáttu Íslendinga og samstarf við íslensk orkufyrirtæki og fjármálastofnanir. Á ráðstefnunni voru haldin fjölmörg erindi um jarðhita og sóknarfæri á sviði hreinnar orku í Bandaríkjunum.

Ráðstefnan sem ber heitið „Steam of Opportunities“ er haldin á vegum Glitnis í tilefni af því að bankinn opnar í dag nýja starfsstöð í New York sem ætlað er að sinna sérstaklega útrás á sviði orkumála. Forseti opnar starfsstöðina við hátíðlega athöfn.

Forseti mun á morgun flytja fyrirlestur í boði Alþjóðlegu friðarstofnunarinnar, International Peace Academy, um stöðu smærri ríkja í upphafi nýrrar aldar, efnahagslega þróun þeirra, viðbrögð við loftslagsbreytingum og nýjum viðfangsefnum á sviði öryggismála. Þá mun forseti jafnframt eiga fundi með fulltrúum ýmissa ríkja og ríkjahópa sem skipulagðir hafa verið af fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum þar sem meðal annars verður fjallað um framboð Íslands til setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna 2009-2010 en utanríkisráðherra hefur farið þess á leit við forseta að hann leggi framboði Íslands lið.