Veftré Print page English

Alþjóðleg landgræðsluráðstefna - Dr. Pachauri


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flytur í fyrramálið þriðjudag 4. september ræðu á sérstökum hátíðarfundi sem haldinn er á alþjóðlegri ráðstefnu sem fram fer á Selfossi. Ráðstefnan er haldin í tilefni af 100 ára afmæli Landgræðslu ríkisins og sækir hana mikill fjöldi vísindamanna og alþjóðlegra áhrifamanna.
Í ræðu sinni á morgun mun forseti Íslands ræða um samhengið á milli landgræðslu og baráttunnar gegn loftslagsbreytingum og hvernig hægt er með alþjóðlegri samvinnu að hamla gegn eyðimerkurmyndun og öðrum afleiðingum loftslagsbreytinga. Hann mun einnig lýsa einstökum aðgerðum sem alþjóðasamfélagið getur gripið til og hvernig reynsla Íslendinga getur nýst öðrum þjóðum.
Í fyrramálið mun forseti einnig sitja sérstakan morgunverðarfund á Selfossi með ýmsum forystumönnum á ráðstefnunni til að ræða væntanlegar niðurstöður hennar og hvernig hægt er að nýta ráðstefnuna til að efla alþjóðlega samvinnu á þessu sviði.
Meðal ræðumanna á morgun verður dr. Rajendra K. Pachauri formaður vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, IPPC. Hann er einn helsti áhrifamaður á sviði rannsókna á loftslagsbreytingum í heiminum og kemur sérstaklega til landsins af þessu tilefni. Skýrslur IPPC á undanförnum mánuðum hafa vakið heimsathygli og á næstuunni verða gefnar út nýjar skýrslur um þetta efni.
Þeim fjölmiðlum sem áhuga hafa á að ræða við dr. Pachauri er bent á að tækifæri mun gefast til þess fyrir hádegi á morgun á Selfossi þar sem hann mun tala ásamt forseta Íslands, á Bessastöðum upp úr hádeginu eða við önnur tilefni síðar um daginn.
Kristján Guy Burgess forstöðumaður Alþjóðavers verður sérstakur fylgdarmaður dr. Pachauris og er hægt að skipuleggja slík viðtöl í samráði við hann í síma 699 0351 eða með tölvupósti: kgb@global-center.org.
Nánari upplýsingar veita Kristján Guy Burgess og skrifstofa forseta Íslands í síma 540 4400.