Barbara Boxer á Íslandi
Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn, Barbara Boxer, formaður umhverfisnefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, situr í dag kynningarfund á Bessastöðum um loftslagsbreytingar og orkumál. Íslenskir vísindamenn og sérfræðingar munu flytja stutt erindi; Finnur Pálsson mun fjalla um breytingar á íslenskum jöklum, dr. Ólafur Flóvenz mun fjalla um nýtingu jarðhita, dr. Einar Gunnlaugsson mun fjalla um niðurdælingu koltvísýrings í jarðlög og Jón Björn Skúlason framkvæmdastjóri Nýorku mun fjalla um íslenska vetnisverkefnið. Að loknum fundinum verða umræður en þátttakendur í fundinum eru einnig Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra, Helgi Hjörvar formaður umhverfisnefndar Alþingis og Albert Jónsson sendiherra.
Fundurinn hefst klukkan 11 og stendur fram í hádegið. Að honum loknum mun öldungadeildarþingmaðurinn halda af landi brott.
Koma Barböru Boxer til Íslands er í framhaldi af fundi sem forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson átti með henni í Washington í apríl síðastliðnum en Barbara Boxer er meðal áhrifaríkari þingmanna í Bandaríkjunum og hefur setið mjög lengi á þingi.