Baráttan gegn fíkniefnum - Fundir í Istanbul
Í morgun átti forseti ítarlegan fund í Istanbul með Kadir Topbas borgarstjóra Istanbul og yfirmönnum borgarinnar í félags- og heilbrigðismálum. Viðfangsefni fundarins var baráttan gegn fíkniefnum en Istanbul er í hópi fimmtán evrópskra borga sem tekið hafa saman höndum um viðamikið forvarnaverkefni sem byggt er á rannsóknum við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík og reynslu Reykjavíkurborgar á þessu sviði. Forseti Íslands er verndari þessa evrópska forvarnaverkefnis sem ber heitið
Ungmenni í Evrópu: Gegn fíkniefnum (ECAD).Þótt alþjóðavæðing, opnari landamæri og bylting í upplýsingatækni hafi haft fjölmargt jákvætt í för með sér hefur þessi þróun jafnframt auðveldað glæpahringum dreifingu og sölu fíkniefna til ungmenna um Evrópu alla. Sameiginleg varnarbarátta er því brýn nauðsyn.
Hinar íslensku rannsóknir hafa leitt í ljós hvaða áherslur eru vænlegastar í öflugum forvörnum og voru þær m.a. kjarninn í Forvarnadeginum sem efnt var til á Íslandi síðastliðið haust.
Forseti Íslands lýsti ítarlega hinum íslensku rannsóknum og reynslunni af forvarnadeginum og fagnaði því að Istanbul hefði ákveðið að taka öflugan þátt í þessari baráttu. Fyrir rúmum mánuði var haldinn í Istanbul samráðsfundur borganna fimmtán sem þátt taka í verkefninu.
Borgarstjóri Istanbul ítrekaði persónulegan stuðning sinn og borgaryfirvalda við verkefnið og kynnti ýmsar hugmyndir sem nú væri unnið að í Istanbul til að efla forvarnir meðal ungs fólks.
Lyfjafyrirtækið Actavis veitir þessu evrópska forvarnaverkefni öflugan stuðning og sat forstjóri fyrirtækisins í Tyrklandi Melih Gürsoy fundinn í morgun.
Að loknum fundinum með borgarstjóra heimsótti forseti höfuðstöðvar Actavis í Tyrklandi og ræddi við forystumenn í lyfjaiðnaði landsins. Þar kom fram að Actavis hefur ríkuleg sóknarfæri á tyrkneskum lyfjamarkaði og fóru hinir tyrknesku stjórnendur lofsamlegum orðum um samvinnu við Íslendinga.
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í gær, fimmtudaginn 28. júní, ræðu á þingi Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sem nú stendur í Istanbul í Tyrklandi. Í ræðu sinni fjallaði forseti um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og þá lærdóma sem draga megi af nýtingu Íslendinga á endurnýjanlegum orkugjöfum, ekki síst jarðhita. Hann vék einnig að fjölmörgum alþjóðlegum verkefnum í orkuvinnslu sem Íslendingar taka nú þátt í víða um heim.
Þá átti forseti fund með Angel Gurría, framkvæmdastjóra OECD þar sem nánar var fjallað um það hvernig reynsla Íslendinga gæti nýst í hinu víðtæka alþjóðlega samstarfi sem framkvæmdastjórinn taldi brýnt að eflt yrði á komandi árum ef takast ætti að koma í veg þær hörmungar sem loftslagsbreytingar gætu leitt til.