Ráðstefna í Tyrklandi - Fundur með forsætisráðherra Tyrklands
Forseti sækir ráðstefnu OECD um framfarir þjóða sem haldin er í Istanbul í Tyrklandi dagana 27.-30. júní. Forsetanum var boðið að flytja erindi um loftslagsbreytingar og orkumál og taka þátt í umræðum á ráðstefnunni, en hana sækja um 900 sérfræðingar og áhrifamenn frá 120 löndum.
Forsætisráðherra Tyrklands Recep Tayyip Erdogan setti ráðstefnuna í morgun en ásamt honum flutti framkvæmdastjóri OECD Angel Gurría ræðu við það tækifæri.
Að lokinni setningarathöfninni óskaði forsætisráðherra Tyrklands eftir sérstökum fundi með forseta Íslands til að ræða möguleika á samvinnu við Íslendinga um nýtingu jarðhita, bæði á sviði rannsókna og framkvæmda. Tyrkland er meðal þeirra landa í veröldinni sem búa yfir miklum auðlindum á þessu sviði en þær hafa enn sem komið er lítt verið nýttar. Erdogan forsætisráðherra vísaði til þess mikla árangurs sem Íslendingar hafa náð á þessu sviði, tæknilegrar forystu og reynslu af verkefnum víða um heim. Forseti Íslands rakti í stórum dráttum þróun jarðhitanýtingar á Íslandi, árangur vísindasamfélagsins og áhuga orkufyrirtækja og fjárfesta á að tengjast jarðhitaverkefnum utan Íslands. Forsætisráðherra Tyrklands lýsti miklum áhuga á því, að í kjölfar komandi þingkosninga í Tyrklandi kæmi sendinefnd til Íslands til viðræðna við orkufyrirtæki, sérfræðistofnanir og fjármálafyrirtæki.
Forseti Íslands átti einnig í gær fund með forseta Tyrklands Ahmed Necdet Sezer. Á þeim fundi kom fram ríkur áhugi forseta Tyrklands á að Tyrkir kynntu sér ítarlega árangur Íslendinga á sviði hreinnar orku, bæði á sviði vatnsafls og jarðhita. Nýting hreinnar orku gæti orðið grundvöllur nýrrar samvinnu milli landanna. Þá ræddu forsetarnir einnig um samstarfsverkefni í forvörnum gegn fíkniefnum, en Istanbul tekur ásamt 14 öðrum evrópskum borgum þátt í verkefninu Ungmenni í Evrópu: Gegn fíkniefnum. Forseti Íslands er verndari verkefnisins en það er byggt á reynslu Reykjavíkurborgar og rannsóknum félagsvísindamanna við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.
Á meðan á dvölinni í Istanbul stendur mun forseti Íslands jafnframt eiga fund með Kadir Topbas borgarstjóra Istanbul um verkefnið og baráttuna gegn fíkniefnum.
Forseti Íslands átti einnig fund með Georgi Parvanov forseta Búlgaríu en hann tók þátt í leiðtogafundi Svartahafsráðsins sem haldinn var í Istanbul í vikunni. Forsetarnir ræddu um árangur af auknum umsvifum íslenskra fyrirtækja í Búlgaríu. Parvanov lagði mikla áherslu á að íslensk fyrirtæki ættu áfram ríka hlutdeild í efnahagslegri þróun Búlgaríu. Kynni hans af íslenskum fyrirtækjum hefðu verið afar jákvæð, en þess má geta að forsetinn opnaði ásamt forseta Íslands nýja verksmiðju Actavis í Búlgaríu fyrir fáeinum árum.