Veftré Print page English

Smáþjóðaleikar - Samráðsfundur


Forseti Íslands sat í morgun, samráðsfund leiðtoga evrópskra smáríkja sem haldinn var í boði Alberts II fursta af Mónakó í tengslum við Smáþjóðaleikana sem þar hefjast í kvöld.


Á fundinum var ítarlega rætt um þær hættur sem yfirvofandi loftslagsbreytingar skapa mannkyni og nauðsyn þess að á sérhverju sviði samfélagsins verði gripið til róttækra gagnaðgerða. Fram kom að loftslagsbreytingar munu skapa fjölda smárra ríkja í veröldinni meiri ógn en öðrum ríkjum vegna þess hve mörg þeirra eru eyríki sem bíða munu verulegt tjón vegna hækkunar sjávarborðs, jafnt á mannvirkjum sem öllu efnahagslífi. Leiðtogarnir ræddu um nauðsyn þess að forystumenn smáríkja tækju saman höndum til að hafa áhrif á aðgerðir á heimsvísu.


Í tilefni af Smáþjóðaleikunum samþykktu leiðtogarnir yfirlýsingu þar sem hvatt er til aðgerða í þágu baráttunnar gegn loftslagsbreytingum með því að vega á móti útblæstri koltvísýrings í andrúmsloftið. Alþjóðleg íþróttamót yrðu kolefnisjöfnuð með markvissum aðgerðum þannig að mengunaráhrif þeirra yrðu hverfandi. Smáþjóðaleikarnir gætu í framtíðinni orðið verðugt fordæmi fyrir önnur alþjóðleg íþróttamót enda væri slík forysta í samræmi við siðferðisgrundvöll hins fjölþjóðlega íþróttastarfs.


125 íslenskir íþróttamenn keppa á Smáþjóðaleikunum í Mónakó í eftirtöldum greinum: frjálsum íþróttum, sundi, fimleikum, körfubolta, blaki, tennis, borðtennis, siglingum, júdó og strandblaki.


Forseti Íslands mun ásamt öðrum leiðtogum evrópskra smáríkja, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, Ólafi Rafnssyni forseta ÍSÍ og öðrum forystumönnum íslenskrar íþróttahreyfingar verða viðstaddur setningarathöfn leikanna í kvöld. Forsetinn mun næstu daga vera viðstaddur ýmsa atburði Smáþjóðaleikanna, en hann er verndari Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.


Smáþjóðaleikarnir voru haldnir á Íslandi árið 1997 og sóttu þá ýmsir leiðtogar evrópskra smáríkja leikana.


Á meðan á dvöl forseta í Mónakó stendur mun hann jafnframt eiga fundi með ýmsum forystumönnum í viðskiptalífi og flytja ræðu í móttöku sem Kaupþing og Jóhannes Einarsson ræðismaður Íslands efna til. Til hennar hefur verið boðið fjölmörgum viðskiptavinum Kaupþings í Suður-Evrópu og öðrum áhrifamönnum úr viðskiptalífi í sunnanverðri álfunni.