Veftré Print page English

Fyrirlestur við Harvard háskóla - Samningur við MIT háskólann


Forseti Íslands var gestur Harvard háskóla í Boston í Bandaríkjunum í gær, þriðjudaginn 3. apríl, og flutti fyrirlestur í boði hins virta prófessors Michaels Porter sem heimsþekktur er fyrir rannsóknir sínar á samkeppnishæfni þjóða. Fyrirlesturinn sóttu stúdentar frá um fimmtíu þjóðlöndum og tók forsetinn þátt í um fjögurra klukkustunda samræðum um árangur Íslendinga á undanförnum árum og tækifæri lands og þjóðar í framtíðinni. Fyrirlestur forseta verður hluti af námsefni um Ísland sem Harvard Business School dreifir til um 100 háskóla um allan heim. Myndir

Í fyrirlestri sínum fjallaði forsetinn um íslenskt viðskiptalíf, þróun frá þeim tíma er Ísland var í hópi fátækustu ríkja veraldar til styrkrar stöðu í samtímanum. Hann vék sérstaklega að öflugri sókn íslenskra fyrirtækja á umliðnum árum á alþjóðlegum vettvangi og ræddi í því samhengi þá möguleika sem breytt heimsmynd og alþjóðavæðing á sviði viðskipta veitir litlum og meðalstórum ríkjum á komandi árum. Í kjölfarið sat forseti kvöldverð í boði Michaels Porter prófessors ásamt ýmsum forystumönnum úr bandarísku viðskiptalífi.

Í heimsókn sinni til Harvard háskóla ræddi forseti einnig við Charles Langmuir prófessor í eldfjallafræði, sem hefur m.a. stýrt rannsóknum á Íslandi. Á fundinum var m.a. fjallað um jarðhitasvæði á hafsbotninum við Ísland. Þá átti forseti fund með forystumönnum Harvard háskólans og var forseta boðið að koma á ný til Harvard til frekara fyrirlestrahalds.

 Í dag, miðvikudaginn 4. apríl, heimsótti forseti Íslands Massachusetts Institute of Technology (MIT) sem hefur aðsetur í Boston. MIT er einn helsti vísinda- og tækniháskóli Bandaríkjanna. Forsetinn átti viðræður við forsvarsmenn háskólans og vísindamenn á sviði orku- og loftslagsmála, m.a. Ernest J. Moniz sem stýrir Orkusetri MIT og Ronald G. Prinn sérfræðing á sviði loftslagsmála. Þá átti forseti ítarlegan fund með Jeffrey Tester prófessor en hann er aðalhöfundur nýrrar skýrslu um jarðhita í Bandaríkjunum og mögulega nýtingu hans sem vakið hefur mikla athygli.

 Í för með forseta í heimsókn hans til MIT háskólans voru Svafa Grönfeldt rektor Háskólans í Reykjavík og Ágúst Valfells forstöðumaður Orkurannsóknaseturs HR. Þau kynntu nýjan samstarfssamning við MIT og tóku þátt í viðræðum um samstarf á sviði vistvænnar orku. Hinn nýi samningur veitir íslenskum fyrirtækjum tækifæri til að nýta sér sérþekkingu og sérfræðinga MIT á ýmsum sviðum en það er Háskólinn í Reykjavík sem sér um framkvæmd hans í umboði Viðskiptaráðs og Samtaka iðnaðarins.

 Forseti heimsótti einnig höfuðstöðvar fyrirtækisins General Catalyst Partner í Boston og átti viðræður við David Fialkow forstjóra þess en fyrirtækið er annar stærsti hluthafinn í íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu CCP sem búið hefur til netleikinn Eve Online sem nýtur vaxandi vinsælda um allan heim og er orðinn að öflugri útflutningsvöru.