Veftré Print page English

Víðtækt samstarf við stærsta háskóla Bandaríkjanna


Í viðræðum forseta Íslands við forystumenn Ohio ríkisháskólans, stærsta háskóla Bandaríkjanna, sem fram fóru í gær, mánudaginn 2. apríl, kom fram ríkur vilji til að efla samstarf við íslenska vísindasamfélagið um rannsóknir á fjölmörgum sviðum. Í heimsókninni voru undirritaðir þrír samningar milli Ohio-háskólans og þriggja íslenskra háskóla, Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskólans og Háskólans á Akureyri. Þá voru jafnframt mótaðar tillögur um rannsóknarverkefni í landgræðslu, orkumálum, jöklafræðum og um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.

Í heimsókninni átti forseti einnig viðræður við nýkjörinn ríkisstjóra Ohio, Ted Strickland um fjölþætt tækifæri sem fólgin eru í aukinni samvinnu milli Ohio og Íslands á sviði vísinda, rannsókna og viðskipta.

Forseta Íslands var boðið að flytja opnunarfyrirlestur í nýrri alþjóðlegri fyrirlestraröð sem háskólinn hefur efnt til. Fyrirlestur forseta bar heitið The Challenges of Climate Change: Iceland – A Laboratory for Global Solutions. Hann fjallaði um framlag Íslands á sviði alþjóðlegra rannsókna og hvernig Íslendingar gætu með samvinnu við fremstu háskóla og rannsóknarstofnanir í veröldinni vísað veginn að nýjum lausnum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og gróðureyðingu. Fyrirlesturinn fjallaði einnig á ítarlegan hátt um frumkvæði Íslendinga í nýtingu hreinnar orku, þátttöku landsins alþjóðlegu vetnisverkefni og tilraunum til að eyða koltvísýringi úr andrúmsloftinu með því að dæla honum djúpt niður í iður jarðar þar sem vonir standa til að hann bindist í föstu formi. Fyrirlesturinn var afar fjölsóttur og að honum loknum svaraði forsetinn mörgum spurningum frá vísindamönnum og stúdentum.

Forseti Íslands átti einnig viðræður við John Glenn fyrrum öldungardeildarþingmann og geimfara en hann var fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem fór hringinn í kringum jörðina. Mikla athygli vakti og fyrir tíu árum þegar hann endurtók leikinn og varð þá jafnframt elsti maðurinn til fara út í geiminn.

Við Ohio-ríkisháskólann starfar ný stofnun kennd við John Glenn þar sem stundaðar eru rannsóknir á sviði stjórnsýslu, stefnumótunar og þróunar lýðræðis. Forsetinn og John Glenn ræddu meðal annars nýjar aðferðir á vettvangi þjóðmála og alþjóðlegra samskipta og hvernig þær geta greitt fyrir lausnum á mörgum þeirra vandamála sem helst brenna á heimsbyggðinni.

Í fylgd með forseta í heimsókninni til Ohio voru Sveinn Runólfsson forstjóri Landgræðslunnar, Ágúst Sigurðsson rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, Andrés Arnalds aðstoðarforstjóri Landgræðslunnar, Ása Aradóttir prófessor og Guðmundur Ingi Guðbrandsson sérfræðingur hjá Landgræðslunni. Þau hafa unnið að undirbúningi viðamikillar alþjóðlegrar ráðstefnu sem haldin verður á Íslandi í byrjun september.

Á ráðstefnunni verður einkum fjallað um hvernig hundrað ára reynsla Íslendinga í landgræðslu og skógrækt getur lagt grundvöll að verkefnum víða um heim til að hamla gegn þeim gríðarlega uppblæstri og gróðureyðingu sem ógnar afkomu hundruða milljóna manna, einkum í Afríku og Asíu. Slíkar landbætur geta orðið veigamikið framlag í baráttunni gegn loftslagsbreytingum enda beinist athygli heimsbyggðarinnar í vaxandi mæli að því hvernig gróður bindur koltvísýring. Slík kolefnisbinding getur jafnframt orðið veigamikil undirstaða matvælaframleiðslu í þróunarlöndum.

Myndir frá heimsókn forseta til Ohio má nálgast á heimasíðu embættisins. Fjölmiðlar geta jafnframt fengið þær myndir, sem þeir óska eftir, sendar í góðri upplausn.