Viðræður í Washington - Tækifæri til nýrrar samvinnu
Forseti átti í gær, fimmtudaginn 29. mars, fundi með bandarískum ráðamönnum í Washington. Á þeim kom fram mikill áhugi á því að sendinefndir bandarískra áhrifamanna kæmu til Íslands á næstu mánuðum til að ræða samstarfsverkefni um endurnýjanlega orku, baráttu gegn loftslagsbreytingum og samvinnu háskóla- og tæknistofnana; það væri heillandi framtíðarsýn ef þessi verkefni leystu af hólmi áratugalanga samvinnu þjóðanna um varnarmál.
MyndirFyrsti fundur forseta var með Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Þar ræddi forseti m.a. um framlag Íslands til nýtingar á umhverfisvænni orku, ekki síst jarðhita; tækifæri til að nýta hann í Bandaríkjunum og mögulegt samstarf Íslendinga og Bandaríkjamanna í umhverfis- og orkumálum. Fundinn sat jafnframt Tom Lantos, formaður utanríkismálanefndar fulltrúadeildarinnar.
Þá ræddi forseti við Harry Reid, leiðtoga meirihlutans í öldungadeildinni en Reid kemur frá Nevadafylki þar sem finna má umtalsverðan nýtanlegan jarðhita. Reid hefur verið hvatamaður þess að Bandaríkjamenn leggi aukna áherslu á nýtingu jarðhita til orkuframleiðslu.
Á fundi forseta með Barack Obama öldungardeildarþingmanni, sem tilkynnt hefur framboð sitt til embættis forseta Bandaríkjanna, var einkum rætt um samstarf á sviði endurnýjanlegrar orku víða um heim, samvinnu Íslendinga og Bandaríkjamanna og hvernig mögulegt væri að breyta fyrrum herstöðinni í Keflavík í alþjóðlega háskóla- og rannsóknarmiðstöð. Obama lýsti áhuga sínum á því að sækja Ísland heim til að kynna sér betur hvernig Íslendingar hefðu komist í fremstu röð þjóða heims með því að skipta út kolum og olíu fyrir endurnýjanlega orkugjafa.
Forseti átti einnig viðræður við Alexander Karsner aðstoðarorkumálaráðherra Bandaríkjanna. Á fundinum lýsti ráðherrann miklum áhuga á því að sækja ráð til Íslendinga um það hvernig auka mætti hlut umhverfisvænna orkugjafa í Bandaríkjunum og skipuleggja samstarf háskóla og viðskiptalífs á því sviði.
Þá sat forseti fundi með öldungardeildarþingmönnunum Tom Harkin frá Iowa og Jon Tester frá Montana en í því fylki hafa Íslendingar átt viðræður við ráðamenn um möguleika á nýtingu jarðhita til orkuframleiðslu.
Forseti Íslands átti einnig fundi með fulltrúadeildarþingmönnunum Rick Boucher úr orkumálanefnd deildarinnar og Ed Markey sem stýrir nýrri nefnd um loftslagsbreytingar og orkumál en sú nefnd hyggur á kynnisferð um norðurslóðir á næstu mánuðum.