Nýr forsetabikar - Ásgeirsbikarinn
Forseti tilkynnir síðdegis í dag við verðlaunahendingu á Íslandsmeistaramóti í sundi að hann hafi ákveðið að gefa nýjan verðlaunabikar í stað Pálsbikarsins sem í dag verður afhentur í fimmtugasta og síðasta sinn. Myndir
Pálsbikarinn var á sínum tíma gefinn af Ásgeiri Ásgeirssyni forseta Íslands en hann var mikill áhugamaður um sundíþróttina og stundaði sund daglega á langri ævi. Flestir afreksmenn Íslands í sundíþróttinni hafa hlotið Pálsbikarinn á þessum 50 árum.
Forseti hefur að höfðu samráði við forystumenn Sundsambands Íslands ákveðið að við hæfi sé að hinn nýi bikar sem hann gefur verði kenndur við Ásgeir Ásgeirsson forseta Íslands vegna langvarandi hollustu Ásgeirs við sundíþróttina.
Hinn nýi forsetabikar verður farandbikar líkt og hinn fyrri og veittur afreksfólki í sundi næstu 50 árin. Sundsamband Íslands mun í samvinnu við forseta setja reglugerð um bikarinn og annast um veitingu hans og varðveislu.
Ásgeirsbikarinn verður veittur í fyrsta sinn árið 2008.