Forsetahjón heimsækja Ártúnsskóla - Verðlaunahafa Íslensku menntaverðlaunanna 2006
Forseti og Dorrit Moussaieff forsetafrú heimsækja Ártúnsskóla á morgun, mánudaginn 12. mars. Ártúnsskóli hlaut Íslensku menntaverðlaunin árið 2006 í flokki skóla sem sinnt hafa vel nýsköpun og farsælu samhengi í fræðslustarfi.
Nemendur, skólastjóri og kennarar Ártúnsskóla taka á móti forsetahjónunum kl. 10:30 í fyrramálið. Í kjölfarið tekur við dagskrá á sal skólans þar sem nemendur flytja tónlist og kynna efnisþætti heimsóknarinnar. Forsetahjónum er síðan boðið að fara um deildir skólans og kynna sér kennsluhætti sem og aðbúnað og viðhorf nemenda. Kl. 11:50 er síðan sérstök dagskrá á sal skólans þar forseti mun ávarpa nemendur og svara spurningum þeirra, sönghópur nemenda syngur og fulltrúar frá FUÁ segja frá skólanum. Dagskrá heimsóknar forsetahjóna í Ártúnsskóla lýkur með því að nemendum, kennurum, starfsfólki og gestum er boðið að þiggja veitingar. Áætlað er að heimsókninni ljúki kl. 12:30.
Í umsögn dómnefndar Íslensku menntaverðlaunanna um Ártúnsskóla sagði m.a.: Ártúnsskóli er um margt framúrskarandi skóli. Í skólanum er lögð sérstök rækt við lífsleikni og jákvæð gildi. Markvisst er leitast við að efla skilning nemenda á mikilvægi heiðarleika, kærleika, samstöðu, samvinnu, umburðarlyndis, vináttu og virðingar og hefur starfsfólk skólans samið námsefni sem notað er í þessu skyni.
Tengsl við grenndarsamfélagið hafa verið einn af hornsteinum skólastarfsins. Vettvangsferðir og umhverfismennt er fastur liður í starfinu. Skólinn er staðsettur í nágrenni við Elliðaárdalinn, Árbæjarsafn og Skólagarða Reykjavíkur og hefur nábýlið verið nýtt á fjölbreyttan hátt í skólastarfinu svo til fyrirmyndar er. Skólinn var einn af fyrstu skólum í Reykjavík til að nýta sér þá möguleika sem grenndarskógar hafa upp á að bjóða og nemendur skólans læra að rækta matjurtir í skólagörðum borgarinnar og njóta uppskerunnar sameiginlega að hausti.
Skólabragur er einstaklega lifandi, umhverfið hlýlegt og fjölbreytt, verk nemenda prýða alla veggi og undirstrika skapandi starf sem fram fer í skólanum. Margar skemmtilegar hefðir eru í skólanum, s.s. föstudagssamvera þar sem foreldrar koma í heimsókn, íþróttadagur, menningarvaka, skólabúðaferðir, útivistardagar, vorverkadagar, afa og ömmudagar og þjóðernisdagur. Þá er söngur í miklum hávegum hafður. Þessum hefðum er m.a. ætlað að efla og treysta félagsvitund og frumkvæði nemenda, styrkja sjálfsmynd þeirra og sjálfstæði.
Ártúnsskóli er skóli fyrir alla. Skólinn hefur fengið viðurkenningu frá landssamtökunum Heimili og skóla fyrir að taka vel á móti nemendum með sérþarfir og hlúa vel að þeim í starfi sínu. Í skólanum hefur verið unnið að merkum þróunarverkefnum á þessu sviði.
Markvisst er unnið að því að foreldrar geti fylgst með starfi barna sinna í skólanum, námsárangri og framförum og tekið virkan þátt í starfinu. Einu sinni í mánuði fara nemendur heim með vitnisburðarbækur þar sem bæði þeir sjálfir og kennarar þeirra hafa lagt mat á starfið og í lok hverrar annar eru samskiptadagar þar sem nemandi, kennari og foreldri hittast, en nemendur eru virkir í undirbúningi og framkvæmd þeirra.
Ánægja foreldra með skólann hefur mælst hæst meðal grunnskóla í Reykjavík, en yfir 92% foreldra eru ánægð með skólann. Ánægja starfsmanna mælist jafnframt með því hæsta í borginni og hið sama má segja um ánægju nemenda.