Forseti Íslands
The President of Iceland
Heiðursorða Lionshreyfingarinnar
Í fréttatilkynningu frá Lionshreyfingunni á Íslandi segir:
"Alþjóðaforseti Lionshreyfingarinnar, Jimmy M. Ross, hefur sæmt forseta Íslands Ólaf Ragnar Grímsson sérstakri heiðursorðu, (Head of state") en hún er einungis ætluð þjóðhöfðingjum og þjóðarleiðtogum. Í ár hafa auk forseta Íslands þeir Hu Jintao forseti Kína og Tony Blair forsætisráðherra Bretlands hlotið þessa orðu. Íslenskir forystumenn Lionshreyfingarinnar afhentu forseta orðuna fyrir hönd alþjóðaforseta hreyfingarinnar við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær, þriðjudaginn 6. mars.
Forseti Íslands er sæmdur orðunni fyrir einstakt framlag hans í þágu hreyfingarinnar. Hann var aðalræðumaður á síðasta alþjóðaþingi hreyfingarinnar sem haldið var í Boston 1.-5. júlí 2006 og vakti ræða hans mikla athygli. Forseti Íslands er einnig verndari Sjónverndarátaks Lionshreyfingarinnar á Íslandi, Sjón fyrir alla, en það er hluti af heimsátaki hreyfingarinnar til að vinna gegn blindu, einkum í fátækari löndum veraldar. Forseti Íslands var einnig ásamt öðrum þjóðhöfðingjum Norðurlanda verndari sérstakrar fjársöfnunar í þágu aldraðra fyrir nokkrum árum.
Veiting heiðursorðunnar til forseta Íslands er jafnframt mikil viðurkenning fyrir starf Lionshreyfingarinnar á Íslandi.
Að lokinni athöfninni á Bessastöðum áttu forystumenn hreyfingarinnar fund með forseta Íslands þar sem ræddar voru ýmsar áherslur í starfsemi hreyfingarinnar á næstu árum og þátttaka hennar í alþjóðastarfi."
Letur: |
| |