Veftré Print page English

Afmæli Noregskonungs - Íslensk fyrirtæki í Noregi - Friðarstofnun


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff hafa þekkst boð Haraldar Noregskonungs um að sækja hátíðarhöld í tilefni af sjötugsafmæli konungs. Þau hefjast í dag, föstudaginn 23. febrúar, með móttöku og tónleikum í ráðhúsi Óslóborgar og kvöldfagnaði á heimili krónprinshjónanna, Hákonar og Mette-Marit. Laugardaginn 24. febrúar verður dagskrá í Menningarsögusafni Noregs og hátíðarkvöldverður og dansleikur í konungshöllinni. Að morgni sunnudagsins 25. febrúar sækja gestir messu í Hallarkirkjunni og síðan atburði í nágrenni Óslóborgar. Forsetahjónin koma heim til Íslands að kvöldi sunnudagsins. Myndir frá afmælishátíð Noregskonungs
Forseti Íslands mun í dag, föstudaginn 23. febrúar, heimsækja höfuðstöðvar ýmissa íslenskra fyrirtækja sem starfa í Noregi og kynna sér vaxandi umsvif þeirra og samstarfsaðila í norsku efnahagslífi. Dagskráin í morgun hófst með heimsókn í höfuðstöðvar Glitnis og BNBank í Ósló þar sem Karl Otto Eidem framkvæmdastjóri og annað starfsfólk kynntu árangur bankans og tækifæri í norsku og alþjóðlegu fjármálalífi á komandi árum.


Þaðan heldur forseti í starfsstöð Kaupþings þar sem lýst verður starfsemi fyrirtækisins í Noregi. Forseti heimsækir síðan höfuðstöðvar Norsk Hydro þar sem Eivind Reitan forstjóri tekur á móti honum. Þar verður einkum fjallað um aukið mikilvægi hreinnar orku á heimsvísu og þær breytingar sem verða munu í orkubúskap jarðarinnar á næstu áratugum, en Ísland og Noregur byggja á hærra hlutfalli hreinnar orku en nokkur önnur lönd í veröldinni.


Forseti Íslands heimsækir einnig nýja Friðarstofnun sem Kjell Magne Bondevik, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, hefur sett á fót. Stofnuninni er meðal annars ætlað að fjalla um þróun mannréttinda og lausn svæðisbundinna átaka. Eftir hádegisverð Norsk-íslenska verslunarráðsins í sendiherrabústað Íslands lýkur þessari sérstöku dagskrá forseta Íslands með kynningu á starfsemi lyfjafyrirtækisins Actavis í Noregi.


Forsetahjónin sátu í gærkvöld kvöldverðarboð sendiherrahjóna Íslands í Noregi þar sem viðstaddir voru fulltrúar úr norsku fjármála- og viðskiptalífi auk stjórnar Norsk-íslenska viðskiptaráðsins.