Forseti Djíbútís heimsækir Ísland
Forseti Djíbútís, Ismail Omar Guelleh, heimsækir Ísland mánudaginn 19. febrúar og þriðjudaginn 20. febrúar næstkomandi. Með honum í för eru utanríkisráðherra Djíbútís, Mahmoud Ali Youssouf, og sveit embættismanna, vísindamanna og sérfræðinga. Forsetinn kemur hingað frá París þar sem hann sat leiðtogafund frönskumælandi Afríkuríkja.
Heimsóknin til Íslands er sprottin af samvinnu forseta Djíbútís, forseta Íslands og hagfræðingsins Jeffrey Sachs, forstöðumanns Earth Institute við Columbia háskólann í Bandaríkjunum, um það hvernig íslensk reynsla, þekking og tækni gætu nýst við virkjun jarðhita í sex löndum í austanverðri Afríku. Auk Djíbútí eru það Kenía, Tansanía, Úganda, Eþíópía og Erítrea.
Forsetinn lendir á Keflavíkurflugvelli klukkan 13:00 mánudaginn 19. febrúar. Frá Keflavík verður haldið að Hellisheiðarvirkjun þar sem Guðlaugur Þór Þórðarson stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur og Guðmundur Þóroddsson forstjóri kynna framkvæmdir við hið nýja orkuver. Þaðan liggur leiðin í höfuðstöðvar Orkuveitunnar en þar mun fara fram viðamikil kynning á starfsemi Orkuveitunnar. Auk þess verður fjallað um Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, Íslenskar orkurannsóknir og Jarðboranir. Sú dagskrá hefst klukkan 15:15.
Utanríkisráðherra Djíbútís mun síðdegis mánudaginn 19. febrúar eiga viðræður við Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra.
Að kvöldi mánudags mun forseti Djíbútís eiga viðræður við forseta Íslands á Bessastöðum. Að þeim loknum munu forsetinn og fylgdarlið hans sitja kvöldverðarboð forseta Íslands.
Að morgni þriðjudagsins 20. febrúar heimsækja forseti Djíbútís og fylgdarlið höfuðstöðvar Glitnis og eiga viðræður við forsvarsmenn bankans og forystumenn hins nýja fjárfestingafyrirtækis Geysir Green Energy. Að því loknu munu gestirnir heimsækja Bláa lónið.
BLAÐAMANNAFUNDUR
Forseti Djíbútís mun ásamt forseta Íslands, borgarstjóranum í Reykjavík og forsvarsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur ræða við blaðamenn og svara spurningum þeirra í húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur. Blaðamannafundurinn hefst um kl. 15:30.