Veftré Print page English

Málþing hjá Dansk Industri


Forseti flutti ræðu á málþingi sem skipulagt var af Dansk Industri og Dansk-íslenska verslunarráðinu í húsakynnum Dansk Industri.
Heiti málþingsins var: Hvorfor er islandske firmaer saa innovative – giver det anledning til forundring? Meðal annarra frummælenda á málþinginu voru Sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings, Hannes Smárason forstjóri FL-Group og Hörður Arnarson forstjóri Marels. Fundarstjóri var Uffe Elleman-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur. Að loknum framsöguræðum svöruðu frummælendur fyrirspurnum fundargesta.
Í ræðu sinni fjallaði forseti Íslands um árangur íslenskra fyrirtækja á alþjóðavettvangi og rakti ýmsar ástæður sem þar liggja til grundvallar. Hann vakti einnig athygli á því að ýmis önnur smærri ríki Evrópu hefðu náð góðum árangri og margt benti til að 21. öldin gæti orðið smáum og meðalstórum ríkjum afar hagfelld. Alþjóðavæðingin og byltingin í upplýsingatækni gæfi athafnamönnum og frumkvöðlum tækifæri til að ná árangri á heimsmarkaði. Lítill heimamarkaður væri ekki lengur sú hindrun sem áður var.
Forsetinn rakti einnig ýmis sérkenni íslensks viðskiptalífs sem gert hefðu íslenskum athafnamönnum kleift að vinna marga sigra í samkeppni við stærri fyrirtæki á heimsmarkaði. Þar kæmi einkum til vinnusemi þjóðarinnar, áhersla á skjót viðbrögð, stuttar boðleiðir, trúnaður í samskiptum einstaklinga og sú staðreynd að þjóðin hefði verið blessunarlega laus við þau svifaseinu skrifræðisbákn sem hömluðu framför í öðrum löndum.
Forsetinn taldi allar líkur á því að útrás íslenskra fyrirtækja mundi á komandi árum halda áfram af fullum krafti og þau góðu tengsl sem Íslendingar hefðu náð við Indland og Kína sköpuðu íslensku viðskiptalífi fjölmörg ný tækifæri.