Veftré Print page English

Danmerkurferð


Forseti hélt í dag áleiðis til Danmerkur. Á morgun, föstudaginn 9. febrúar, flytur hann opnunarávarp á stórri sýningu á verkum eftir Jóhannes Kjarval og Ólaf Elíasson í listasafninu Gammel Strand. Það er í fyrsta sinn sem verkum þessara tveggja íslensku myndlistarmanna er skipað saman á sýningu. Verkin eftir Kjarval eru ríflega 30 talsins og mörg verka Ólafs Elíassonar á sýningunni eru ný. Sýningin ber á dönsku heitið Lavaland. Á undan sýningunni munu forsetahjónin sitja hádegisverðarboð í dönsku konungshöllinni Amalienborg.

 Í fyrramálið flytur forseti erindi á málþingi danskra atvinnurekenda um árangur íslenskra fyrirtækja á erlendri grundu og framtíðarhorfur í íslensku viðskiptalífi. Meðal annarra frummælenda eru Sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings, Hannes Smárason forstjóri FL-Group og Hörður Arnarson forstjóri Marels. Fundarstjóri er Uffe Elleman Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur. Málþingið fer fram í húsakynnum Dansk Industri og hefst kl. 10:45 að staðartíma. Að loknum framsöguræðum munu frummælendur svara fyrirspurnum.

 Forseti mun einnig ýta úr vör á föstudagsmorgun verkefni sem helgað er Gullfossi sem á sinni tíð var flaggskip íslenska flotans og brú milli Íslands og Danmerkur. Einstöku líkani af skipinu hefur verið komið fyrir í húsakynnum Norðurbryggju og er ætlunin að hvetja alla þá, farþega og aðra, sem eiga minningar frá Gullfossi að senda þær frásagnir til menningarmiðstöðvarinnar á Norðurbryggju.

 Síðdegis í dag, fimmtudaginn 8. febrúar, mun forseta heimsækja höfuðstöðvar danska bankans FIH Erhvervsbank sem er í eigu Kaupþings til að kynna sér umfang íslenskrar fjármálastarfsemi í Danmörku.