Veftré Print page English

Viðræður við skoska forystumenn


Forseti átt í dag og í gær fundi með ýmsum forystumönnum Skotlands þar sem fram kom mikill áhugi á að auka tengsl Íslands og Skotlands enda gætu Skotar lært margt af árangri Íslendinga. Nýfengin sjálfstjórn Skota gæfi þeim tækifæri til þróunar á mörgum sviðum.

Forseti Íslands átti sérstaka fundi með formanni skosku heimastjórnarinnar Jack McConnell, forseta skoska þingsins George Reid, hópi skoskra þingmanna og Leslie Hinds borgarstjóra Edinborgar.
Á öllum fundunum var vikið að sameiginlegri sögu Íslands og Skotlands sem rekja má til landafundanna fyrir þúsund árum, mikilvægi íslenskra flugfélaga um langt árabil fyrir samskipti Skota við umheiminn, auknu samstarfi íslenskra og skoskra athafnamanna og að mikill fjöldi Íslendinga hefði sótt nám til Skotlands.

Forseti Íslands gerði grein fyrir hvernig samstarf þjóða við Norður-Atlantshaf hefði þróast á undanförnum áratugum, reglulegu sambandi við Færeyinga og Grænlendinga og frændþjóðir á Norðurlöndum. Mikilvægt væri í ljósi breytinga á stjórnkerfi Skotlands að Skotar yrðu einnig virkir þátttakendur í fjölþættu samstarfi þjóða og samfélaga á norðurslóðum.

Í viðræðunum var greinilegt að nýfengin sjálfstjórn Skota hefur skapað mikinn kraft í landinu. Allir forystumennirnir lýstu eindregnum áhuga á að styrkja og efla ákvarðanavald Skota á æ fleiri sviðum og vísuðu í þann árangur sem náðst hefði á sviði vísinda og tækni en mikil áhersla hefur verið lögð á að byggja upp þekkingariðnað í Skotlandi.

Í viðræðunum við forystumenn Skota og á leiðtogaráðstefnunni sem haldin var í Edinborg á vegum Microsoft hugbúnaðarfyrirtækisins kom fram sú eindregna afstaða að menntun væri mikilvægasta fjárfesting á 21. öldinni ef þjóðir ætluðu að treysta sess sinn í vaxandi samkeppni á heimsmarkaði. Á leiðtogafundinum í morgun ítrekuðu Bill Gates stjórnarformaður Microsoft og Gordon Brown fjármálaráðherra Breta þessa grundvallarskoðun með ítarlegum dæmum og fjölþættum rökstuðningi. Í viðræðunum við hina skosku forystumenn kom fram að fjárfesting í menntun er nú þegar orðin algert forgangsatriði skoskra stjórnvalda og mikilvægasta tækið til að styrkja stöðu Skota bæði innan Evrópu og á heimsmarkaði.