Veftré Print page English

Fundur forseta og Bill Gates


Forseti átti fund síðdegis  með Bill Gates, stofnanda og stjórnarformanni Microsoft hugbúnaðarfyrirtækisins. Fundurinn var haldinn í Edinborg þar sem þeir sækja báðir leiðtogaráðstefnu sem haldin er í skoska þinginu. Myndir

Á fundinum lýsti Bill Gates áhuga á að kynna sér nánar möguleika Íslands til að vera tilraunavettvangur fyrir nýjan hugbúnað og þróun upplýsingatækni, einkum í ljósi þess að raforkuframleiðsla Íslendinga væri byggð á hreini orku. Hann gerði sér grein fyrir því að smærri ríki hefðu til að bera margvíslega eiginleika sem gerðu þau kjörin til að þjóna slíku hlutverki og árangur Íslendinga í netvæðingu, tölvunotkun og útbreiðslu farsíma væri athyglisverður á heimsvísu.

Hann tók vel í boð forseta Íslands um að heimsækja Ísland til að kynna sér nánar þessa möguleika. Lýsti hann sérstökum áhuga á að kynna sér nýtingu jarðhitans til orkuframleiðslu því fyrirtæki eins og Microsoft og önnur öflug hugbúnaðar- og tæknifyrirtæki þyrftu aðgang að öflugum orkulindum.

Forseti Íslands hvatti Bill Gates til að efla rannsóknar- og þróunarstarf fyrirtækisins á Íslandi. Áhugi Íslendinga á upplýsingatækni og hvers kyns tækninýjungum væri mikill, netvæðing meiri en í flestum öðrum ríkjum. Á Íslandi væri virkur samkeppnismarkaður og greiður aðgangur að gegnsærri stjórnsýslu. Þar að auki væru öflugir háskólar á Íslandi og mikill fjöldi menntaðra vísindamanna og tæknimanna á þessu sviði.

Á fundi forseta og Bill Gates var einnig rætt um mannúðar- og líknarverkefni sem Stofnun Bill Gates og Melindu Gates stendur að víða um veröld, ekki síst á vettvangi heilbrigðismála á Indlandi og í Afríku. Benti forseti á að íslenska lyfjafyrirtækið Actavis framleiddi á heimsmarkaði ódýr samheitalyf sem gætu nýst vel á baráttunni gegn skæðum sjúkdómum. Vék forseti að nýlegri heimsókn sinni til Indlands og framlagi Gateshjónanna við að styrkja menntun ungra stúlkna á Indlandi.

Í dag hóf Microsoft dreifingu á heimsvísu til almennings á nýju stýrikerfi sem ber heitið Vista, og við þetta tækifæri afhenti Bill Gates forseta eintak af því. Microsoft stefnir að því að setja íslenska gerð stýrikerfisins á markað eftir rúma þrjá mánuði og fagnaði forseti því að íslensk tunga hafi slíkt vægi í vöruframboði fyrirtækisins. Minnti forseti Íslands Bill Gates á að í aðdraganda landafundaafmælisins árið 2000 hefði hann skrifað honum bréf til að hvetja Microsoft til að heimila íslenska gerð af stýrikerfi sínu þar eð íslenska hefði borist fyrst evrópskra tungumála til Ameríku fyrir þúsund árum.