Veftré Print page English

Yfirlýsing um loftslagsbreytingar


Mikilvægur áfangi í starfi samráðsþingsins á fundi í New York



Á Samráðsþingi um loftslagsbreytingar sem forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson sótti í New York var í gær lögð lokahönd á ítarlega yfirlýsingu um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Í yfirlýsingunni eru raktar helstu niðurstöður vísindamanna um hættuna af völdum loftslagsbreytinga sem mannkyn stendur andspænis á næstu áratugum og lýst margvíslegum aðgerðum sem þjóðir heims, fyrirtæki og almenningur þurfa að sameinast um ef takast á að afstýra þeirri hrikalegu ógn sem við blasir.


Forseti Íslands átti ásamt hinum þekkta hagfræðingi Jeffrey D. Sachs frumkvæði að stofnun Samráðsþingins en það hefur starfað undanfarin tvö ár. Fundur þess á Íslandi í júní síðastliðnum var mikilvægur áfangi að endanlegu samkomulagi.


Mörg helstu stórfyrirtæki heims eiga aðild að Samráðsþinginu. Meðal þeirra eru fjármálastofnanirnar Goldman Sachs og JP Morgan, orkufyrirtæki á borð við Shell og BP, hátæknifyrirtæki eins og Google, álfyrirtækin Alcan og Alcoa, ásamt Toyota, General Electric og um 150 öðrum fyrirtækjum, stofnunum og samtökum víða að úr veröldinni. Margir heimsþekktir vísindamenn hafa einnig tekið þátt í störfum þingsins.


Í framhaldi af fundi þingsins á Íslandi hafa fulltrúar Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, Íslenskra orkurannsókna og Glitnis tekið þátt í störfum þess.


Endanleg gerð yfirlýsingarinnar um loftslagsbreytingar verður kynnt á blaðamannafundi í New York snemma á næsta ári.


Kjarninn í yfirlýsingunni er að efla verði nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá samgöngutækjum og iðnaði, að stuðla að rannsóknum og þróun til að nýta orku betur, hvetja til þess að tekið verði mið af umhverfisáhrifum við hönnun og byggingu húsnæðis og annarra mannvirkja, og styðja tilraunir um bindingu koltvísýrings. Yfirlýsingin er studd með tilvísunum í vísindagreinar og alþjóðlegt rannsóknasamstarf.


Lykilatriði í baráttunni við loftslagsbreytingarnar er að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í stað olíu og kola. Á meðal þeirra kosta sem mögulegt er að þróa frekar, eru jarðvarmi, vindorka, sólarorka, vatnsorka, sjávarföll og lífrænt eldsneyti.


Ef ekki verður gripið til aðgerða munu loftslagsbreytingar valda varanlegum skaða fyrir mannkyn og hafa í för með sér gríðarlegan kostnað fyrir efnahagslíf þjóða. Á fundinum í New York gerðu fulltrúar stærstu fjármálastofnana og tryggingafélaga heims grein fyrir þeim risavaxna kostnaði sem aukin tíðni flóða og fellibylja sem og óveður hafa þegar valdið víða um heim. Hækkun sjávarborðs vegna bráðnunar jökla mun einnig hafa í för með sér skelfilegar afleiðingar.


Fulltrúar stórra fyrirtækja gerðu ennfremur grein fyrir þeim ávinningi sem ný tækni og notkun endurnýjanlegrar orku gæti skapað atvinnulífi og einstökum þjóðum. Mikill fjárhagslegur ágóði gæti falist í því að ryðja braut nýjungum á þessu sviði.


Á fundi Samráðsþingsins í New York var iðulega vísað til árangurs Íslendinga í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og flutti forseti Íslands ræðu um árangur þjóðarinnar, möguleika á samvinnu Íslendinga við aðrar þjóðir og þá breytingu sem orðið hefur á alþjóðavelli undanfarna mánuði í viðhorfum til hættunnar á loftslagsbreytingum. Auknar líkur eru á að hægt verði á næstu misserum að skapa þá víðtæku samstöðu sem nauðsynleg er til að forða mannkyni frá yfirvofandi hættu.