Veftré Print page English

Garðarshólmi


Forseti tilkynnti á fundi á Húsavík í morgun að Karl XVI Gústaf konungur Svíþjóðar hefði samþykkt að vera ásamt forseta Íslands verndari Garðarshólma.
Garðarshólmi er verkefni sem miðar að því að koma á fót menningarsetri og þekkingarmiðstöð á Húsavík sem tengd yrði nafni Garðars Svavarssonar, sænska víkingsins sem fyrstur kom á þessar slóðir. Menningarsetrið yrði helgað sameiginlegum söguarfi Svíþjóðar og Íslands og umfjöllun um hvernig maðurinn getur leikið náttúruna með tilvísun til þróunar gróðurfars á Íslandi frá landnámi til okkar daga.
Þekkingarmiðstöðinni er einnig ætlað að tengjast alþjóðlegri umræðu um sjálfbæra þróun og framtíð vistkerfa jarðarinnar og að vera vettvangur fyrir fundi og rannsóknir fræðimanna víða að úr veröldinni. Að auki er rætt um að á vegum Garðarshólma verði fjallað um þróun siglinga á norðurslóðum.
Unnið hefur verið að undirbúningi Garðarshólma um nokkurt skeið og er verkefnið í höndum Norðurþings. Haft hefur verið samráð við ýmsa aðila og söfn í Svíþjóð.
Forseti ræddi þessar hugmyndir við konung Svíþjóðar fyrr á þessu ári og nú hefur konungurinn samþykkt að vera verndari Garðarshólma ásamt forseta Íslands. Mjög sjaldgæft er að konungur Svíþjóðar gerist verndari verkefna utan síns heimalands.