Forseti Íslands
The President of Iceland
Hrein orka - samráðsfundur í San Francisco
Forseta Íslands hefur verið boðið ásamt Al Gore, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, að sækja sérstakan samráðsfund sem haldinn er í San Francisco. Fundurinn hefst í dag og eru þátttakendur forstjórar sumra stærstu fyrirtækja Bandaríkjanna, sérfræðingar á sviði tækni og vísinda og áhrifaríkir fjárfestar. Fundurinn er haldinn á vegum fjárfestingasjóðsins Kleiner Perkins Caufield and Byers en það fyrirtæki hefur átt ríka hlutdeild í eflingu nýrra greina í alþjóðlegu atvinnulífi.
Á samráðsfundinum verður einkum fjallað um þá möguleika sem hin mörgu svið hreinnar orku fela í sér, en þar ber hæst jarðhita, vindorku, sólarorku, líforku en einnig aðrar greinar nýrra orkugjafa. Markmið samræðunnar er að kanna hvernig nýjar leiðir í orkumálum geta hamlað gegn þeirri miklu hættu á loftslagsbreytingum sem blasir við mannkyni á næstu áratugum.
Forseti Íslands mun gera grein fyrir árangri Íslendinga í nýtingu jarðhita og hvernig sú kunnátta hefur stuðlað að samstarfsverkefnum víða um veröld. Þá mun forsetinn gera grein fyrir hugmyndum um hvernig Íslendingar geta tekið aukinn þátt í þróun hreinna orkugjafa í öðrum löndum
Letur: |
| |