Veftré Print page English

Special Olympics - Ráðstefna hjá Sameinuðu þjóðunum


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson mun á morgun, föstudaginn 10. nóvember, flytja ávarp á ráðstefnu í New York á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um málefni Special Olympics og fyrirhugaða heimsleika samtakanna í Shanghai í Kína haustið 2007
Meðal annarra þátttakenda í ráðstefnunni verða Kofi Annan framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sendiherra Kína hjá Sameinuðu þjóðunum, leiðtogar Special Olympics samtakanna og fulltrúar kínverskra stjórnvalda og skipuleggjenda leikanna í Shanghai 2007 ásamt öðrum alþjóðlegum áhrifamönnum á þessum vettvangi.
Þá mun forseti Íslands sitja stjórnarfund Special Olympics samtakanna mánudaginn 13. nóvember og þriðjudaginn 14. nóvember en forsetinn hefur undanfarin ár átt sæti í stjórninni og tekið virkan þátt í störfum hennar.
Special Olympics voru stofnuð að frumkvæði Kennedy fjölskyldunnar árið 1968 og hafði Eunice Kennedy Shriver, systir John F. Kennedy Bandaríkjaforseta, forystu í þeim efnum. Fjölskyldan hefur síðan gert samtökin að öflugri alþjóðlegri hreyfingu sem skipuleggur m.a. viðamikla heimsleika í nafni samtakanna. Þá leika sækja þúsundir keppenda frá tæplega 200 ríkjum og er talið að um 7000 keppendur muni sækja leikana í Shanghai í október á næsta ári.
Þátttaka Íslands í heimsleikum Special Olympics hefur verið skipulögð af Íþróttasambandi fatlaðra og hafa fjölmargir íslenskir keppendur tekið þátt í leikum á vettvangi samtakanna.