Veftré Print page English

Guðrún Katrín Þorbergsdóttir forsetafrú

Guðrún Katrín Þorbergsdóttir forsetafrúFædd 14. ágúst 1934
Dáin 12. október 1998

Guðrún Katrín Þorbergsdóttir var fædd í Reykjavík 14. ágúst 1934, dóttir hjónanna Guðrúnar S. Bech húsmóður og Þorbergs Friðrikssonar skipstjóra. Systkin Guðrúnar Katrínar eru Auður borgardómari, Þór búfræðingur og Þorbergur verkfræðingur.


Guðrún Katrín varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1955 og starfaði á Náttúrufræðistofnun Íslands 1955-1963. Hún bjó í Danmörku og Svíþjóð frá 1965-1972 og las fornleifafræði við Gautaborgarháskóla og síðar þjóðfélagsfræði við Háskóla Íslands.


Guðrún Katrín sat í bæjarstjórn á Seltjarnarnesi 1978-1994. Hún var í stjórn Minja og sögu, vinafélags Þjóðminjasafns Íslands frá 1991 til dauðadags.


Guðrún Katrín var framkvæmdastjóri Póstmannafélags Íslands frá 1979-1996, með þriggja ára hléi 1988-1991 þegar hún rak verslunina Garn Gallerí við Skólavörðustíg í Reykjavík.


Guðrún Katrín vann talsvert við prjónahönnun og uppskriftir eftir hana birtust í blöðum og tímaritum.


Guðrún Katrín tók virkan þátt í forsetakosningunum 1996 og talaði með Ólafi Ragnari á öllum framboðsfundum. Eftir að hann tók við embætti forseta Íslands lét Guðrún Katrín einkum til sín taka á sviði menningar og lista, í velferðarmálum og í baráttunni gegn fíkniefnum.


Guðrún Katrín greindist með hvítblæði haustið 1997 og lést eftir harða baráttu við sjúkdóminn í Seattle í Bandaríkjunum 12. október 1998.


Árið 1974 giftist Guðrún Katrín Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands og eiga þau tvíburadæturnar Guðrúnu Tinnu viðskiptafræðing og Svanhildi Döllu stjórnmálafræðing og lögfræðing, fæddar 1975. Dætur Guðrúnar Katrínar af fyrra hjónabandi eru Erla Þórarinsdóttir myndlistarmaður, fædd 1955, og Þóra Þórarinsdóttir kennari, fædd 1960.